Kynhneigð

Kynhneigð

Kynhneigð segir til um hverjum þú laðast að kynferðislega/líkamlega/andlega, byggt á kyni þeirra miðað við þitt eigið kyn. Eins og kyn þá getur kynhneigð verið mjög breytileg og jafnvel breyst oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Mörgum finnst gott að skorða sig inn í hóp eftir skilgreiningum á meðan aðrir kjósa að elska óháð þeim. Fólk er alls konar, og þess vegna er kynhneigð það líka.

Af skilgreindum kynhneigðum má t.d. nefna:

  • Gagnkynhneigð (e. heterosexual)
  • Samkynhneigð (e. homosexual)
  • Tvíkynhneigð (e. bisexual)
  • Pankynhneigð (e. pansexual)
  • Eikynhneigð (e. asexual)​

Við mælum með fræðslusíðu Samtakanna '78, Hinsegin frá Ö til A, til að kynna sér þessi hugtök og skilgreiningar betur.

Gagnkynhneigð

Gagnkynhneigðir einstaklingar laðast að einstakling af gagnstæðu kyni þ.e. karl laðast að konu og öfugt. Gagnkynhneigð er algengasta og mest áberandi kynhneigðin í okkar samfélagi. Oft er gengið út frá því að einstaklingar séu gagnkynhneigðir og þeir þurfa sjaldnast að berjast fyrir sinni kynhneigð eða verða fyrir áreiti hennar vegna. Athugið að gagnkynhneigð er hugtak litað af kynjatvíhyggju, þ.e.a.s. þeirri hugmynd að kynin séu einungis tvö. 

Samkynhneigð

Samkynhneigðir einstaklingar laðast að einstakling af sama kyni þ.e. kona laðast að konu og öfugt. Þá er hægt að tala um samkynhneigða karla sem homma en samkynhneigðar konur sem lesbíur. Margar ranghugmyndir eða staðalímyndir (e. stereotypes) fylgja samkynhneigðum, þá einna helst að hommar séu alltaf kvenlegir og að lesbíur séu alltaf karlmannlegar.  Samkynhneigðir einstaklingar, eins og aðrir, eru alls konar og margir passa ekki inn í þessar stöðluðu myndir. Allir eiga rétt á að fá að skilgreina sína kynhneigð eins og hentar. ​

Algengur misskilningur er að samkynhneigð sé andstæða gagnkynhneigðar og þar með séu valmöguleikarnir upp taldir. Svo er ekki, þar sem margir falla þar á milli eða jafnvel fyrir utan!

Tvíkynhneigð

Tvíkynhneigðir einstaklingar laðast að fleiri en einu kyni. Tvíkynhneigðir hafa þurft að berjast fyrir þeim réttindum að vera ekki troðið undir gagn- eða samkynhneigða skilgreiningu. Kynhneigð manneskju breytist ekki sama af hvaða kyni einstaklingurinn sem hún er í sambandi með á þeim tíma er, t.d. verður tvíkynhneigð stelpa ekki gagnkynhneigð þótt hún byrji með strák eða samkynhneigð sé hún í sambandi með stelpu. Einnig getur aðlöðun að kynjunum verið mismikil eða breytileg eftir tíma eða manneskjum.

Pankynhneigð

Pankynhneigðir einstaklingar hrífast af fólki af öllum kynjum (svipað og tvíkynhneigðir). Þó þýðir það ekki að pankynhneigðir hrífist jafn mikið af öllu fólki. Sumir skilgreina pankynhneigð þannig að maður hrífist af persónuleika, óháð kyni eða kyntjáningu (sjá kynvitund). Eins og flestir hafa pankynhneigðir þó ákveðnar hugmyndir um hvað þeim finnst aðlaðandi þegar kemur að útliti en kyn þarf ekki að spila þar inn í.

Eikynhneigð

Að vera eikynhneigður er að laðast lítið eða ekkert að öðru fólki kynferðislega. Eikynhneigður einstaklingur getur laðast tilfinningalega að öðrum aðila, en ekki haft neinn áhuga á kynlífi eða öðru því tengdu. Þetta er ólíkt því vali að stunda ekki kynlíf eða skírlífi (e. celibacy). Hjá eikynhneigðum einstaklingum er kynferðisleg löngun ekki til staðar en sumir velja þó að stunda kynlíf af einhverjum toga. Fólk sem hefur ekki áhuga á að vera í rómantískum samböndum kallast eirómantískt.

Spurt og svarað um kynhneigð

Við hvern get ég talað um kynhneigð?

Samtökin '78 eru með ráðgjafatíma, stuðningshópa, fræðslur og allskonar hittinga!

Þarf ég að vera komin/nn/ð út til þess að koma í ráðgjöf?

Það er alls engin nauðsyn. Fólk er eins og það er og er velkomið í ráðgjöf.

Hver vita að ég hafi komið í ráðgjöf?

Þú og ráðgjafi, starfsfólk skrifstofunnar sem tekur á móti ráðgjafabókun þinni og svo það starfsfólk sem er statt á skrifstofunni þegar þú átt tíma. Engar áhyggjur þó, allt starfsfólk Samtakanna '78 og sjálfboðaliðar hafa skrifað undir þagnareið.

Má koma með einhvern með sér?

Að sjálfsögðu, ef þú vilt og treystir einhverjum til að koma með þá er það velkomið. Gott er að láta ráðgjafa vita áður en tími hefst ef einhver kemur með þér.

Hvað kostar ráðgjöfin?

Það kostar ekkert að koma í ráðgjöf fyrstu þrjá til fimm tímana. Ef þú vilt halda áfram að koma til ráðgjafa eftir þrjá til fimm ráðgjafatíma þá er best að ræða það við þinn ráðgjafa og semja um greiðslu.

Hvað má ég tala um við ráðgjafa?

Hvað sem er og allt sem þú treystir þér til að tala um.

Ég varð fyrir ofbeldi vegna þess að ég er hinsegin, hvað á ég að gera?

Ef þú hefur orðið fyrir ofbeldi vegna hinseginleika er mikilvægt að tilkynna brotið hjá lögreglu. Hægt er að hringja í lögreglu í 112 eða tilkynna brot rafrænt hér: Lögreglan | Lögregluvefurinn.

Samtökin '78 halda einnig gagnagrunn yfir ofbeldi, mismunun, áreiti, hatursorðræðu eða hatursglæp á veg Samtakanna '78 hér: Tilkynna ofbeldi, mismunun, áreiti, hatursorðræðu eða hatursglæp
Samtökin '78 bjóða einnig upp á lögfræðiráðgjöf. Lögfræðiráðgjafi Samtakanna getur lagt mat hvort um stærra mál er að ræða sem þarfnast dómstóla. Í slíkum tilfellum vísar lögfræðiráðgjafinn á viðeigandi aðila. Hægt er að bóka lögfræðiráðgjöf hér: Bóka ráðgjöf.

Einnig bendum við á Bjarkarhlíð, en Bjarkarhlíð er þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Þar gefst einstaklingum kostur á viðtölum og ráðgjöf hjá félagsráðgjöfum, lögreglu og lögfræðingum þeim að kostnaðarlausu og á þeirra forsendum. Hægt er að bóka tíma hér: Bjarkarhlíð.

Hvernig kem ég út fyrir foreldrum?

Það er allur gangur á hvernig og hvort fólk kemur út fyrir foreldrum sínum og fer það að miklu leyti eftir sambandinu við foreldrana. Gott getur verið að setjast niður og segja frá í rólegheitum, skrifa bréf eða póst til þeirra eða fá aðstoð frá einhverjum sem þú treystir eins og kennara, vin eða maka. 

Viltu vita meira?

Ef þér finnst þú ennþá ekki vita nóg eða þinni spurningu var ekki svarað, ekki hika við að hafa samband við okkur í Ástráði eða Samtökin '78!

Helstu upplýsingar eru fengnar af vefsíðu Samtakanna '78 og fræðsluvef þeirra Hinsegin frá Ö til A.