top of page
17911304107419917.jpg

Sjálfsfróun

fullnæging

Kynlífstæki

Sjálfsfróun

Sjálfróun er einfaldlega kynlíf með sjálfum sér og endar oft með fullnægingu.

Afhverju stundar fólk sjálfróun?

  • Gredda

  • Því leiðist

  • Til að sofna

  • Til að losa streitu

  • Til að læra á líkamann sinn og vita hvað því finnst gott

Er eðlilegt að fróa sér?

Auðvitað! Flestir byrja mjög ungir að skoða líkamann sinn og fatta hvar þeim finnst gott að koma við sig. Það á enginn að finna fyrir skömm varðandi sjálfróun. Það er ekkert eðlilegra - svo lengi sem þetta sé gert í einrúmi með sjálfum sér. Svona eins og að fara á klósettið!

Svo er líka frekar hollt að stunda sjálfsfróun! Við fullnægingu losar líkaminn endorphin - sama hormón og losnar eftir góða æfingu. Endorphin draga úr verkjum og ýta undir vellíðan. Endorphin geta þannig minnkað túrverki, látið þér líða betur og mikið, mikið fleira. 

Einnig er sjálfróun gagnleg losun á streitu og greddu ef það er langt síðan þú stundaðir kynlíf eða bólfélagi þinn er kannski ekki í stuði. 

Það er alls ekki framhjáhald að stunda sjálfróun í sambandi. Það er í raun mjög heilbrigt þar sem langflestir í samböndum hafa ólíka kynhvöt og vilja ekki alltaf stunda kynlíf á sama tíma. 

Hvernig á ég þá að fróa mér?

Byrjaðu hægt og rólega. Það er engin ein leið til að stunda sjálfsfróun rétt og allir eru mismunandi. Best er að þreifa sig bara áfram rólega og sjá hvað veldur góðri tilfinningu. Sumum finnst gott að byrja í sturtu eða baði til að ná að slaka almennilega á. 

Það er hægt að prófa sig áfram með höndum en líka:

  • Sleipiefni

  • Sturtuhausum (mikilvægt að passa að setja ekki mjög mikið af vatni inn í leggöngin en það getur raskað bakteríuflórunni þar)

  • Kynlífstækjum

  • Smokkum með eða án sleipiefni (það gerir líka þrifin einfaldari)

ATH að kynfærin eru viðkvæm og ekki mjög hrifin af utanaðkomandi bakteríum. Þess vegna er mikilvægt að allt sem er notað við sjálfróun sé hreint og helst hannað til sjálfsfróunar eins og tæki. Heimilishlutir og matvörur geta komið með óæskilegar bakteríur í kynfæri. 

Snípurinn er næmasti hluti píkunnar og kóngurinn (fremsti hluti typpisins) er næmasti hluti typpisins. Þó má ekki gleyma öllu hinu sem getur verið gott að koma við eins og skapabarmarnir, leggöngin, pungurinn, endaþarmsopið, geirvörtur og margt fleira.

 

Sjálfróun er öruggasti tíminn til að vita hvað kveikir í þér.

fróun

Fullnæging

Fullnæging er svar líkamans við mikilli kynferðislegri örvun (allt sem þér finnst "sexy" og lætur þér líða vel). Við þessa örvun eykst blóðflæði til kynfæranna.

Typpi rísa = standpína, boner

Snípurinn stækkar og leggöngin blotna

Við fullnægingu með typpi verður langoftast sáðlát þ.e. sæði kemur út úr typpinu.

Við fullnægingu með píku getur orðið saflát (e. squirting) en hjá flestum er fullnægingin tilfinning án þess að eitthvað sérstakt gerist. 

Afhverju fullnæging? 

Manneskjan er eitt af mjög fáum dýrum sem stundar kynlíf bara fyrir ánægjuna - mörg spendýr geta fengið fullnægingar en flest stunda þau samfarir bara til að búa til afkvæmi. 

En er fullnæging þá eini tilgangur kynlífs ef við erum ekki að reyna að búa til börn? Stutta svarið er nei.

Langa svarið er: 

Fullnæging er mjög skemmtilegur hluti kynlífs. Flestir vilja fá að upplifa fullnægingu í lok kynlífs - eða jafnvel oftar en einu sinni í kynlífi. Stór misskilningur hefur þó orðið á tengingu kynlífs og fullnægingar þ.e. að kynlífið sé lélegt ef að annar eða báðir aðilar fá ekki fullnægingu. 

Kynlíf getur verið frábært án fullnægingar! Það er t.d.

  • Frábær leið til að tengjast maka

  • Gaman að láta dekra við sig og gera eitthvað sem er gott

  • Hægt að læra betur inn á sjálfan sig og makann sinn

Svo er líka mikilvægt að muna hvað mikilvægasta líffærið er í kynlífi - smá hint, það er ekki typpið eða píkan. 

Heldur heilinn!

Þegar maður stundar kynlíf annars hugar er nær ómögulegt að fá fullnægingu! Heilinn sér um að stjórna kynferðislegri örvun og að taka við öllum skynjunum í kynlífi og segir þér hvort þér finnist eitthvað gott eða ekki. 

Ef þú ert að hugsa um óhreina þvottinn á gólfinu, heimanámið sem þú átt eftir eða þá hversu stressandi það er að þú sért ekki að fá fullnægingu þá eru allar líkur á að þú munir ekki fá fullnægingu. Ef heilinn er ekki með í leiknum er kynlíf miklu, miklu leiðinlegra. 

Pressan á að fá fullnægingu er langalgengasta ástæða þess að fólk á erfitt með að "fá það". 

Önnur algengasta ástæðan er að snípurinn gleymist! Sumir geta fengið fullnægingu í gegnum leggöng en langflestir fá ekki fullnægingu nema snípurinn sé örvaður.

Hvernig á ég þá að fá fullnægingu?

1. Ekki hugsa svona mikið. Kynlíf á að vera eitthvað sem maður nýtur og ofhugsun hjálpar engum. 

2. Vertu viss um hvað þú fílar. Það er mjög erfitt að fá fullnægingu ef makinn þinn er ekki að gera rétta hluti og er ekki að örva þig rétt. Besta leiðin til að vita hvað örvar þig er að prófa sig áfram í sjálfsfróun.

3. Samskipti. Að tala við makann sinn getur í fyrsta lagi minnkað stressið við kynlíf og í öðru lagi er mikilvægt að segja makanum til svo hann geti látið þér líða sem best. Svo má líka láta vita ef þú vilt bara taka pásu og kannski reyna aftur aðeins seinna. Það má alveg kyssast og kúra í miðju kynlífi og halda svo áfram. 

4. Tæki. Það eru margir sem nota kynlífstæki í kynlífi til að auka ánægju og þau geta hjálpað mikið til við að fá fram fullnægingu. 

5. Góð stemning. Það getur hjálpað að gera umhverfið þægilegra til að ná að slaka almennilega á. Minnkið birtuna í herberginu, kveikið jafnvel á kertum eða þægilegri tónlist - allt eftir því hvað hentar!

6. Slepptu áfengi. Mjög margir eiga erfitt með að fá fullnægingu þegar áfengi er komið í kerfið en áfengi minnkar bæði skynboð sem við fáum og það er erfiðara að einbeita sér. 

fullnæging

kynlífstæki

17940707608379453.jpg

Kynlífsleikföng eru leikföng eða tæki sem er hægt að nota í kynlífi - annaðhvort með öðrum eða þegar stunduð er sjálfróun. Það er til endalaust úrval af tækjum, spilum, flíkum og leikjum til að bæta inn í kynlífið. 

Notkun kynlífstækja er alltaf undir því komin að áhugi og vilji sé til staðar. Það er fullkomlega eðlilegt að nota kynlífstæki en alveg jafn eðlilegt að vilja ekki nota þau. Í kynlífi með öðrum þarf alltaf að vera samþykki beggja aðila fyrir því að nota tæki. 

af8653_1000_1300_3.jpeg

Sleipiefni

Sleipiefni er frábær viðbót í allskonar kynlíf - sjálfróun, samfarir, endaþarmsmök og fleira. Sleipiefni eykur unað og minnkar núning. Það er líka nauðsynlegt fyrir endaþarmsmök og gott þegar verið er að koma við snípinn eða liminn þar sem þar er engin náttúruleg bleyta. 

Mikilvægt er að athuga að sum sleipiefni má ekki nota með latex smokkum þar sem þau leysa latexið upp. 

Einnig geta sumir verið viðkvæmir fyrir innihaldsefnum sleipiefna og þá er best að kaupa hreint sleipiefni. Hægt er að prófa að setja dropa af sleipiefni innan í kinnina til að sjá hvernig líkaminn bregst við efninu áður en sleipiefnið er notað á kynfæri. 

Titrari

Titrarar koma í mörgum stærðum og gerðum. Titrarar sem eru sérstaklega hannaðir til að örva bara snípinn kallast oft Egg. Allir titrarar eiga það sameiginlegt að... ja, titra! Ólík tæki titra á mismunandi hraða, sumir hafa hraðastillingar og jafnvel mismunandi takta. Það eru líka til dildóar sem líkjast titrurum í formi en eru ekki rafmagnaðir og titra því ekki.

Til eru titrarar sem er ætlað að örva leggöngin innan frá og sumir þeirra hafa jafnvel hluta sem örvar snípinn á meðan. 

Egg

Eggin eru tegund titrara sem er frekar ætlað til útvortis örvunar t.d. snípurinn, geirvörtur, pungur o.fl. Eggin geta líka verið sniðug sem paratæki og sum eru sérstaklega hönnuð til þess.

monoflex2_416_540_2.jpeg
evaii2_416_540_2.jpeg
pom-myntu5_416_540_2.jpeg
e31221-1-hr_416_540_2.jpeg

Sogtæki

Þessi tæki eru ólík titrurum þar sem þau veita sog - og sum hafa titring líka. Þeim er ætlað að leggjast á snípinn. Sumum tækjum er jafnvel stjórnað með appi í símanum. Engar áhyggjur þó - þetta er ekki eins og ryksuga! Sogið er sérhannað fyrir unaðslega upplifun.

Typpahringir

Typpahringir eru margs konar en allir hafa þeir þann tilgang að lengja tímann að fullnægingu og þannig geta samfarir enst lengur og fullnæging verður kröftugri. Sumir eru hannaðir til að dempa höggið í samförum og stjórna hversu djúpt typpið fer, aðrir eru með titring og svo eru til paratyppahringir sem örva líka snípinn í samförum. 

bon002_1000_1300_3.jpeg
e31171-1-hr_1000_1300_3.jpeg

Endaþarmsleikföng

Endaþarmurinn geymir marga taugaenda og mörgum finnst gott að örva hann. Það má nota til þess titrara og önnur leikföng en flest leikföng fyrir endaþarm eru sérstaklega hönnuð með þykkum botni. Það er til þess að koma í veg fyrir að leikfangið sogist inn í endaþarminn og þá er erfitt að ná því út. 

Buttplug eru algeng leið til að örva endaþarminn og koma í allskonar stærðum og gerðum. 

Mikilvægast er að muna að nota alltaf sleipiefni þegar verið er að fara inn í endaþarminn - hann bleytir sig ekki sjálfur eins og leggöngin og án sleipiefnis geta komið sár í endaþarminn. 

Sumum finnst gott að hreinsa endaþarminn fyrir endaþarmsmök og þá er t.d. hægt að nota svokallaðan douche. 

litilldouche2_416_540_2.jpeg
buttsett2_416_540_2.jpeg
trippleripple_1000_1300_3.jpeg

Múffur

​Múffur eða rúnkmúffur eru hannaðar til að veita örvun á typpi. Því er náð fram með allskonar mynstri inn í múffunni, titring eða breytilegum loftþrýsting inni í múffunni. Þær eiga að líkja eftir kynlífi um leggöng eða munnmökum. 

bon032-2_416_540_2.jpeg
05939310000-4_416_540_2.jpeg

Grindarbotnskúlur

Þessar kúlur eru ekki beint notaðar í kynlífi en geta hjálpað til við kröftugri fullnægingar. Þær styrkja grindarbotnsvöðvana þegar þær eru notaðar rétt. Festingin á kúlunum er sett inn í leggöng og kúlunum þannig haldið uppi - eins og lóð fyrir grindarbotnsvöðvann. Þær koma í mismunandi þyngdum og best er að byrja í léttum lóðum og færa sig svo í meiri þyngd. Gott er að tala við lækni ef einhver vandamál hafa verið með leggöng eða legháls eða ef þú ert með lykkjuna. 

gfemmefit2_1000_1300_3.jpeg

Og miklu, miklu fleira!

Tækin hér fyrir ofan eru bara brot af því úrvali sem hægt er að bæta inn í kynlífið. Fleiri hlutir sem má fá í kynlífsbúðum eru m.a.

  • Deyfandi og örvandi sprey á kynfæri

  • Strap on dildóar

  • Fatnaður

  • Teningar fyrir hugmyndir í kynlífi

  • Spil

  • Kitlari

  • Ólar, svipur og grímur

  • Typpabúr

  • Rifflaðir hanskar

  • Nuddvendir

  • Geirvörtuklemmur

  • Rólur

  • Fisting hanskar

Það er gaman að leika sér og nota ímyndunaraflið en munum alltaf að fá 100% samþykki ef að tveir eru að leik. Báðir aðilar þurfa að veita samþykki til að nota dót í kynlífi!

Hreinlæti

Við notkun kynlífstækja er mikilvægt að gæta hreinlætis. Þrífið tæki og dót eftir notkun skv. leiðbeiningum frá framleiðanda. Athugið að sum kynlífstæki eru gerð úr viðkvæmum efnum og því þarf að passa upp á hvaða sápur og sleipiefni má nota með þeim til að koma í veg fyrir að þau skemmist. Auk þess eru kynfærin viðkvæmt svæði og því er gott að forðast að nota sterkar sápur á kynlífsleikföng en með því má koma í veg fyrir ertingu, óþægindi og sýkingar á kynfærasvæði. Ef deila á kynlífstækjum í kynlífi getur verið sniðugt að setja smokk yfir tækið til þess að stuðla að hreinlæti og minnka líkur á kynsjúkdómasmiti.

Sum endaþarmsleikföng má einnig má nota til örvunar á öðrum svæðum. Slík leikföng þarf að þrífa vel bæði eftir hverja notkun og ef skipta á úr endaþarmi yfir á önnur svæði t.d. í leggöng. Með því má koma í veg fyrir að óæskilegar bakteríur berist frá endaþarmi yfir á viðkvæmari svæði.

tæki
lube
titrari
egg
sog
hringir
anal
múffur
grindarbotns
fleira
hreinlæti

Algengar spurningar

Er skrýtið að fróa sér með smokk?

Alls ekki! Það veitir bæði æfingu í að setja smokkinn á og nota hann rétt og það minnkar þörfina á þrifum eftir á ef þú færð fullnægingu! Svo eru sumir smokkar með mynstri eða sleipiefni sem geta gert sjálfróun betri. 

Er framhjáhald að fróa sér?

Nei. Það er í raun mjög heilbrigt að fróa sér þrátt fyrir að vera í sambandi þar sem það bætir þína eigin líðan og getur bætt þína upplifun í kynlífi. Ef að makinn þinn er ósáttur við þína sjálfróun er það eitthvað sem þið þurfið bara að ræða t.d. ef makinn vill ekki að þú fróir þér yfir ákveðnu efni eins og klámi. En engin getur bannað þér að fróa sér en samskipti eru mikilvæg svo öllum líði vel. 

Ég hef ekki aldur til að kaupa kynlífstæki.

Aldurstakmark 16+ er í öllum kynlífstækja verslunum. Ef þú hefur áhuga á að kaupa kynlífstæki fyrir þann aldur er alltaf hægt að skoða á netinu og fá mögulega vin til að versla fyrir þig eða versla einfaldlega á netinu. 

qa
bottom of page