top of page
6_Samskipti_Kura.jpg

samskipti

Samskipti í kynlífi

Áður en aðilar stunda kynlíf hafa alltaf átt sér stað einhvers konar samskipti. Tala þarf saman til þess að komast að því hvað hinn aðilinn vill og hvað ykkur langar að gera saman. Fólk les nefnilega ekki hugsanir!

 

Góð atriði til að velta fyrir sér:

Hvað vil ég?

Hvað vil ég ekki?

Hvernig veit ég hvað ég vil?

Get ég sagt nei?

Get ég sagt hvað mér finnst gott?

Virði ég mörk annarra?

 

 

Góð leið til þess að vita hvað maður vill er að prófa sig áfram sjálfur, t.d. með sjálfsfróun og læra þannig að þekkja sín eigin mörk.

Góð samskipti, virðing og nærgætni milli einstaklinga skipta miklu máli!

 

Fyrsta skiptið

Hvenær er rétti tíminn? Það er því miður enginn sérstakur aldur sem hentar öllum heldur er besta stundin bara þegar báðir aðilar eru tilbúnir og líður vel. Það er lykilatriði að geta talað saman fyrir fyrsta skiptið og treyst hvort öðru. Það er líka ágæt þumalputtaregla að hafa "stundað kynlíf" með sjálfum sér áður en maður dregur einhvern annan inn í leikinn. Annars getur verið svo flókið að vita hvað manni finnst gott!

Það er bæði samfélagsleg pressa að byrja að stunda kynlíf snemma en ekki of snemma -- samt heldur ekki of seint! Og alls ekki með of mörgum eða bara hverjum sem er! Þegar kemur að kynlífi má finna endalaust af ólíkum skoðunum um hvað er "rétt og rangt" en það eina sem er mikilvægt er að vera ánægð/ur og sátt/ur sjálfur.

 

Þetta er þitt líf og þú ræður mikilvægum málum sem þessum algjörlega sjálf/ur. Enginn hefur leyfi til að dæma þig eða kasta skömm á þig fyrir kynlífið þitt, hvenær eða hvort þú hefur sofið hjá, fjölda bólfélaga eða þvíumlíku.

Það sést ekki utan á fólki hvort það hafi stundað kynlíf eða ekki. Því eru orð eins og hrein/nn eða óhrein/nn ekki réttmæt til notkunar í samskiptum. Enginn verður óhreinn eða minna virði við að stunda kynlíf. Kynlíf er eðlilegt, frábært og gott fyrir alla sem vilja það. Það að missa meydóminn/sveindóminn er líka frekar mikið bull - afhverju þarftu að vera að tapa einhverju þegar þú stundar fyrst kynlíf? Ef það er upplifunin af fyrsta skiptinu þá er eitthvað bogið við það kynlíf. 

Ef þú ert að fara að stunda kynlíf  í fyrsta skiptið er í lagi að segja hinum aðilanum það því það getur minnkað stressið og áhyggjurnar að "standa sig vel" - en það er alls engin skylda!

samskipti

Samþykki

Samþykki er ótrúlega mikilvægur hluti af okkar daglega lífi og við erum alltaf að biðja um eða veita samþykki án þess að hugsa um það. Samþykki er það sem gerir reynsluna örugga og þægilega - fyrir utan það að samþykki er nauðsynlegt! Svo fáðu já!

Langar þig að gera eitthvað í kvöld?

Má ég knúsa þig?

Er þetta sæti laust?

Viltu eitthvað að drekka?

17913459082420556.jpg

Þegar borin er upp spurning um kynlíf eða nýja hluti í kynlífi þarf maður stundum að velta fyrir sér hvernig skal svara. Mikilvægt er að hlusta á eigin sannfæringu og ekki láta stjórnast af öðrum

Á sama tíma þarf að gera sér grein fyrir því að hinn aðilinn má líka alltaf hætta við, skipta um skoðun eða segja nei.

Það þarf alltaf að virða það! 

 

Nei þýðir nei er ágæt regla en mikilvægt er að: "Ég veit ekki" þýðir nei. "Ekki núna" þýðir nei. Þögn þýðir nei. Grátur þýðir nei. Svo fáðu bara já til að vera laus við allan vafa. 

Ef þér líkar ekki við eitthvað í kynlífinu er sjálfsagt að láta vita af því. Hvort sem það er eitthvað eins og óþægileg stelling eða að þú viljir einfaldlega hætta. Kynlíf byggist á því að allir séu samþykkir því sem fer fram. Ef þér líkar ekki við eitthvað sem fer fram í kynlífinu er best að segja það og finna saman lausn.

 

Dæmi um það sem er hægt að segja:

Ég er ekki alveg að fíla þetta

Getum við gert þetta frekar (stinga upp á einhverju öðru)?

Mér finnst þetta ekki þægilegt svona

Getur þú hætt?

Mig langar ekki að gera þetta lengur

Getum við stoppað aðeins/núna/alveg

Hvernig og hvenær veitum við og fáum samþykki?

Samskipti eru númer 1,2 og 3 í kynlífi. Þau eiga sér stöðugt stað!

Fyrir kynlíf, á meðan á kynlífi stendur og eftir kynlíf.

Fyrir: Vilt þú gera þetta? Hvað langar þig að gera? Hvað finnst þér gott í kynlífi?

Á meðan: Er þetta gott? Líður þér vel? Er þetta óþægilegt/vont? Vilt þú breyta til? Vilt þú halda áfram/byrja aftur? Vilt þú að hætta?

Eftir: Hvað fannst þér gott? Hvað mátti betur fara? Truflaði eitthvað þig? Er þetta eitthvað sem þú getur hugsað þér að gera aftur? 

Ef aðilinn sem þú ert að stunda kynlíf með vill hætta eða jafnvel virðist ekki áhugasamur er það þín skylda að stoppa og að minnsta kosti taka stöðuna. Það má alltaf taka fimm sekúndna pásu til að segja "er allt í góðu" eða "viltu halda áfram?". 

 

Manneskja án meðvitundar getur ekki svarað þessum spurningum og er því ekki í standi til að stunda kynlíf! Það á við um einhvern sem er sofandi eða undir áhrifum áfengis eða efna.

Engin ein regla er til um að þetta, t.d. að spyrja þurfi alltaf á fimm mínútna fresti. En þarna spilar inn í að geta lesið bólfélagann sinn.

Er manneskjan að sýna áhuga eða liggur hún bara þarna hreyfingarlaus?

Finnurðu fyrir óþægindum frá þeim og lítilli þátttöku?

 

Með því að vera meðvitaður um fólkið sem þú ert með þá er auðvelt að stoppa og athuga hvort allt sé í góðu lagi! Ef þér finnst þú ekki geta það þá eru samskiptin augljóslega ekki í lagi ykkar á milli.

 

Svo er líka sniðugt að spyrja alltaf áður en eitthvað nýtt er gert, eins og t.d. áður en breytt er um stellingar eða hvort þið viljið bæði skipta yfir í munnmök núna. Ekki gera ráð fyrir að fólk sé alltaf til í allt, hvort sem þið hafið gert það áður eða ekki. "Já" í gær eða seinustu viku þarf ekki að þýða "já" í kvöld og öll kvöld eftir það.

Þvingað samþykki

Suð eða þrýstingur er þvingað samþykki og gildir því ekki sem alvöru samþykki.

 

Ef aðili hefur sagt nei, ekki í kvöld, ég vil eitthvað annað en þú og svo framvegis þá er þér skyldugt að taka því og láta aðilann vera. Samþykki á að koma náttúrulega og af fullum vilja. 

Mikilvægt er að skilja að samþykki má draga til baka hvenær sem er! Ef aðili hefur sagt já en segir núna nei eða sýnir áhugaleysi ber þér að virða það!

Samþykki í netheimum

Samþykki á líka við um netsamskipti. Myndir geta verið æðislega skemmtilegar og sexý ef báðir aðilar treysta hvorum öðrum, eru til í að senda og taka á móti myndum. ATH að það er jafn mikilvægt að vilja fá myndina og að senda hana. Óumbeðin mynd af kynfærum er tegund af kynferðisofbeldi.

 

Sýnum tillitssemi og sendum ekki óumbeðnar myndir. Einnig er mikilvægt að vita að þú mátt ekki dreifa myndum áfram ef myndin er af einhverjum öðrum en þér og þú hefur ekki fengið leyfi  til dreifingarinnar. Það er ólöglegt.

Lögum samkvæmt er ólöglegt að senda kynferðislegar myndir þar sem aðilinn á myndinni er undir 18 ára aldri en það er gert samkvæmt barnaverndarlögum. Grunnurinn er að fara alltaf varlega í að senda myndir og vita að móttakandinn er traustsins verður.

Samþykki
ofbeldi

Andlegt ofbeldi

Hvað eru "mörk"?

Mörk eru breytileg milli fólks en eru skilgreind sem lína sem þú vilt ekki að annað fólk fari yfir. Þú getur átt mörk gagnvart maka, fjölskyldu, vinum o.fl. 

Ég vil ekki stunda kynlíf

Mér finnst óþægilegt þegar við tölum um þetta

Ég vil ekki að þú talir svona við mig eða komir svona fram við mig

Mörkin okkar geta breyst milli daga en þau eru eitt það mikilvægasta til að virða í samskiptum við annað fólk! Ef að þú ferð yfir mörk annarra eða einhver fer yfir þín mörk kallast það ofbeldi. Það getur veruð allt frá óþægilegum athugasemdum yfir í káf og jafnvel nauðgun.

Ofbeldið getur verið líkamlegt (að berja einhvern eða meiða), kynferðislegt (að þvinga einhvern í kynferðislegar athafnir), stafrænt (gegnum netið) eða andlegt. 

Andlegt ofbeldi er því miður ekki óalgengt í nánum samböndum og sérstaklega rómantískum samböndum. Hvernig lýsir þá andlegt ofbeldi sér í samböndum?

Heilbrigt samband

Virðing

Traust

Opin samskipti

Hreinskilni

Jafnræði

Samkennd

Óheilbrigt samband

Tortryggni

Tillitsleysi

Afbrýðissemi

Óheiðarleiki

Samskiptavandi

Valdabarátta

Ofbeldis samband

Ásakanir

Eignarhald

Einangrun

Þvinganir

Stjórnun

Niðurlæging

Sambandsrófið fengið frá Sjúk Ást

Ef þú hefur orðið fyrir ofbeldi eða telur þig vera í óheilbrigðu sambandi er alltaf best að opna umræðuna. Kannski geturðu ekki rætt það við makann þinn en þá er mikilvægt að ræða við einhvern náinn sem þú treystir - fjölskylda, vinir eða kennari. Svo er líka til fagfólk sem getur hjálpað.

Rauði Krossinn - netspjall og hjálparsími: 1717

Drekaslóð: 551-5511

Bergið Headspace: 571-5580

Kvennaráðgjöfin - ókeypis félagsráðgjöf: 552-1500

Kvennaathvarfið - símaráðgjöf: 561-1205

Bjarkarhlíð: 553-3000

Aflið (Akureyri)

Sólstafir (Ísafjörðr)

Félagsþjónusta sveitafélagsins

Barnavernd

5_Erfidur_Tími.jpg
faq

Spurt og svarað

HVAÐ Á MAÐUR AÐ GERA EF MAÐUR VILL HÆTTA MEÐ EINHVERJUM EN VIÐKOMANDI HÓTAR SJÁLFSVÍGI EÐA AÐ MEIÐA SIG?

Það getur tekið á tilfinningalega að hætta með einstaklingi. Fólk er misjafnt og einstaklingar taka sambandsslitum því misvel. Það er nauðsynlegt að fara varlega að sambandsslitum og muna að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Þrátt fyrir það er mikilvægt að sýna hreinskilni og ekki að tala í kringum hlutina. Ef einstaklingur hótar því að framkvæma sjálfsvíg eða að meiða sig í kjölfar sambandsslita þá er það ákveðið form af andlegu ofbeldi. Ef þú ert ákveðinn að hætta með einstaklingnum þá á eitthvað svona ekki að stöðva þig. Ef þú telur einstaklinginn vera alvara með þessar hótanir getur verið gott að reyna að tala hann af því. Einnig getur verið gott að tala við einhvern nákominn þeim aðila og vara þá við ef þið teljið þörf á. Þá er gott að leita til samtaka eins og Pieta samtakanna og reyna að koma máli einstaklingsins undir hönd fagaðila.

HVERNIG VEIT ÉG HVAÐ ÉG VIL OG HVAÐ ÉG VIL EKKI?

Það er mikilvægt að hlusta á eigin sannfæringu en ekki láta stjórnast af öðrum. Góð leið til þess að vita hvað maður vill er að prófa sig áfram sjálfur og læra þannig að þekkja sín eigin mörk. Góð samskipti, virðing og nærgætni milli einstaklinga skiptir miklu máli, þá koma væntingar, mörk og óskir allra aðila í ljós. Að lokum er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að allir mega alltaf hætta við, skipta um skoðun og segja nei og þá þarf alltaf  að virða það.

Ef þér finnst þú ennþá ekki vita nóg eða þinni spurningu var ekki svarað, ekki hika við að hafa samband!

bottom of page