top of page
9_Elska_Piku_edited.jpg

PÍKAN (e. vulva)

Píka er oft notað sem samheiti yfir ytri kynlíffæri hjá einstaklingum sem fæðast með XX litning. Hægt er að fjalla um ytri og innri kynlíffæri og þau eru eftirfarandi:

Ytri (e. vulva)

Skapabarmar

Snípur

Leggangaop

Þvagrásarop

Innri (e. vagina)

Leg

Leggöng

Eggaleiðarar

Eggjastokkar

Píkan

Ytri kynfæri XX

12_Píka_UtanMeð_Merkingum.jpg

Skapabarmar

Á píkunni eru bæði innri og ytri skapabarmar. Skapabarmarnir verja þvagrásaropið og leggangaopið. Á ytri skapabörmunum vaxa oft hár en ekki á þeim innri. Toppurinn á innri skapabörmunum er það sem við köllum snípinn (e. clitoris). 

Bæði innri og ytri skapabarmar eru mjög næmir og geta örvast við snertingu. Skapabarmarnir fyllast af blóði við örvun og þá stækkar vefurinn og verður enn næmari. 

Skapabarmarnir eru gjörólíkir milli fólks og geta verið langir eða stuttir, krumpaðir eða sléttir, mislitir og jafnvel breyst með aldrinum. 

Sumir kjósa að fara í aðgerð á skapabörmum, þá oftast ef að formið á þeim er truflandi. Of langir skapabarmar geta truflað í kynlífi eða valdið öðrum óþægindum. Sumir vilja fara í aðgerð eingöngu í fegrunarskyni, sem er möguleiki. Samt er mikilvægt að muna að allir skapabarmar eru fallegir og það er ekki til ein gerð sem er fullkomnari en hin. 

Snípurinn

Snípnum er oft lýst sem "toppnum á ísjakanum". Þegar horft er á píkuna utanfrá sést nefninlega bara í mjög lítinn hluta af snípnum, svokallaða snípshettuna. Allur snípurinn er miklu stærri og liggur undir húðinni, í kringum leggöngin og teygir sig út um allt. 

Snípurinn myndast á sama hátt og typpið og er úr sama vef - svokölluðum risvef eða svampvef. Snípurinn getur fyllst af blóði og stækkað, sem veldur meiri örvun. 

Það er hægt að örva snípinn utan frá með snertingu, titrara o.fl. Hann liggur alltaf efst við innri skapabarmana og er misstór. Það er kannski ekki létt að greina hann með augunum en auðvelt að finna hann með snertingu þar sem hann er langnæmastur. Snípurinn hefur nefninlega 8.000 taugaenda bara í litla toppnum sem við sjáum!

Snípinn má líka örva innan frá og hann gerir samfarir um leggöng góð, en hann liggur vel í kringum leggöngin. Suma má jafnvel örva í gegnum svokallaðan G-blett sem er talinn vera 2-7 cm inn í leggöngin og er í framveggnum (í átt að maganum). 

Ólíkt leggöngunum þá bleytir snípurinn sig ekki sjálfur og því getur verið gott að nota sleipiefni eða bleytu frá leggöngunum þegar komið er við snípinn. Annars getur orðið óþægilegur núningur sem veldur sárum og veseni. 

12_Snipur.jpg

Leggangaopið

Leggangaopið liggur neðar en þvagrásaropið. Þaðan út kemur útferð, túrblóð og börn. Þangað eru túrtappar settir inn. Þess vegna er hægt að pissa með túrtappa þar sem þvagrásin er ennþá opin. 

Útferð er eðlilegur hluti af hreinsunarferli píkunnar en það er hægt að nota hana líka til að greina óreglu í píkunni. Vanalega er útferðin glær eða hvít en það getur breyst með tíðahringnum og hún orðið gulleit eða brúnleit. Það er mismikil og breytileg lykt af útferð milli fólks og lyktin breytist líka með tíðahringnum. Það er mikilvægt að þekkja líkama sinn og vita hvernig útferðin er vanalega - miklar breytingar á þinni eðlilegu útferð geta verið merki um sýkingu. 

Þar sem píkan hreinsar sig sjálf er ekki mælt með að setja sápu á innri skapabarmana og alls ekki inn í leggöngin. Það er nóg að viðhalda hreinlæti með volgu vatni á ytri kynfærin og leyfa leggöngunum að hreinsa sig sjálf. 

Þvagrásaropið

Þvagrásaropið liggur rétt undir snípnum og ofan við leggöngin. Þvagrásaropið er örsmátt og engin hætta á að ruglast á því og leggangaopinu. Þaðan kemur þvagið út og einnig getur komið þaðan vökvi við saflát (e. squirting). 

Saflát er hluti af fullnægingu sem sumir upplifa. Þá losnar vökvi úr þvagrásinni sem er ekki þvag og líkist meira bleytunni sem myndast í leggöngunum. Tilfinningin við saflát getur líkst því að þurfa að pissa. Vökvinn sem kemur út er ekki frá þvagblöðrunni heldur kirtlum sem heita Skene's glands. 

Innri kynfæri XX

13_Píka_MeD_Merk.jpg

Legið (e. uterus)

Legið liggur ofan á þvagblöðrunni. Vanalega er það á stærð við krepptan hnefa. Það er búið til úr vöðvavef og innan í leginu er vefur sem kallast legslíma. Legslíman er vefurinn sem tekur breytingum á tíðahringnum og í óléttu. Þegar blæðingar eiga sér stað er legslíman að losna frá leginu og skila sér út um leggöngin. Ef að frjóvgað egg sest í legslímuna stöðvar það blæðingarferlið. 

Neðst á leginu er leghálsinn. Hann kemur m.a. í veg fyrir að eitthvað komist frá leggöngunum upp í legið. Það eina sem kemst þar í gegn eru sæðisfrumurnar. Túrtappar og aðrir hlutir geta ekki komist inn í legið. 

Leghálsinn getur verið viðkvæmur og því geta samfarir valdið óþægindum ef farið er of djúpt inn í leggöngin og leghálsinn snertur. Sumar stellingar geta bætt úr þeim óþægindum eða þá að reynt er að fara styttra inn í leggöngin. 

Leggöng (e. vagina)

Leggöngin byrja við leggangaopið og enda við leghálsinn. Þau eru vanalega í kringum 6cm á lengd. Við kynferðislega örvun getur legið lyft sér upp og togað leggöngin með sér, sem lengir þau og þau slaka líka á og víkka. Þess vegna geta t.d. typpi sem eru lengri en 6 cm komist inn í leggöngin. 

Litlir kirtlar sitja sitt hvoru megin við enda legganganna (við opið) og seyta vökva sem bleytir leggöngin, eins og náttúrulegt sleipiefni. Innri veggir legganganna eru viðkvæmir og þess vegna geta myndast lítil sár við samfarir. Aðal ástæðan er sú að það er ekki nægileg bleyta við samfarir eða leggöngin eru ekki nógu slök. Það er ekki hættulegt að það blæði við samfarir en auðvelt að koma í veg fyrir það með notkun sleipiefnis eða lengri tíma í forspil og slökun áður en kynlíf hefst. 

Leggöngin eru góð í að hreinsa sig sjálf og þess vegna myndast útferð. Það er sérstök bakteríuflóra sem verndar leggöngin. Ef þessi flóra raskast getur komið upp sveppasýking. Það getur gerst vegna sápu eða annara efna sem kemst inn í leggöngin, töku sýklalyfja, blæðinga, þröngra buxna og fleira. Sveppasýking getur líka smitast milli bólfélaga. Hægt er að taka lyf til að losna við sýkinguna og koma flórunni aftur í rétt far. 

Þessi viðkvæma bakteríuflóra gerir það líka að verkum að ekki er sniðugt að fara með neitt beint úr endaþarmi inn í leggöng. Í samförum er mælt með að skipta um smokk ef farið er frá endaþarmi yfir í leggöng og við notkun kynlífstækja skal þrífa þau vel á milli. 

Meyjarhaftið (e. hymen) er teygjanleg himna eða hringur sem liggur innan í leggöngunum. Hjá sumum þekur hún allt holið og "lokar" leggöngunum en oft er þetta bara þykkur hringur innan í leggöngunum. Þessi himna getur slitnað eða rofnað og gerir það hjá langflestum á lífsleiðinni. Hjá sumum rofnar hún við kynlíf en hjá öðrum við áreynslu eins og fimleika eða hjólreiðar. Það getur blætt örlítið þegar himnan rofnar í fyrsta skiptið. 

Eggjastokkarnir (e. ovaries)

Eggjastokkarnir geyma öll eggin sem við fæðumst með. Þeir sjá líka um að mynda kynhormónin okkar eins og estrógen, prógestrón og testósterón. Í hverjum tíðahring losa eggjastokkarnir egg - oftast bara eitt en stundum fleiri (þannig verða tvíeggja tvíburar til). Þessi losun á eggjum hættir í kringum 40-50 ára aldur og þá verða tíðahvörf. Blæðingar hætta og getnaður getur ekki átt sér stað lengur. 

Eggjaleiðarar (e. fallopian tubes)

Eggjaleiðararnir grípa eggið sem losnar frá eggjastokkunum og fer með það niður í legið. Frjóvgun (þegar sáðfruma hittir egg) á sér stað í eggjaleiðurunum. Eggin geta lifað í nokkra daga í eggjastokkunum. 

SPURT OG SVARAÐ

Um XX kynfæri

Er hættulegt að sofa með túrtappa?

Það er ekki mælt með því þar sem túrtappi ætti ekki að vera lengur en 8 klst inni í einu. Eftir þann tíma er komin sýkingarhætta.

Vert er að nefna að þú ættir að fjarlægja túrtappa fyrir kynlíf, því annars getur hann þrýstst lengra upp í leggöngin og þá getur verið mjög erfitt að ná í hann síðar.

Af hverju get ég ekki sett í mig túrtappa?

Stundum er ekki verið að nota rétta stærð þ.e. túrtappinn er of stór fyrir þín leggöng. Það þarf þó ekki að vera, stundum er túrtappinn bara ekki settur nógu langt inn eða honum er beint í vitlausa átt. Annar fótur upp á klósettsetu, slaka vel á vöðvum kringum leggöng og hægt er að setja vaselín efst á túrtappann. Túrtappar virka svo bara ekki vel fyrir suma og þá er hægt að nota dömubindi í staðinn. 

Hvernig virkar leghálsskoðun? 

Við 23 ára aldur er boðað í leghálsskoðun. Þá er farið til læknis eða á heilsugæslu. Þar er lagst á bekk með fætur í sundur og pinni svo notaður til þess að taka stroksýni úr leghálsi innst í leggöngum. Þetta er hvorki sársaukafull né tímafrek skoðun en mjög gagnleg til að greina mögulegar frumubreytingar og bera þannig kennsl á krabbamein áður en það þróast lengra. 

Ef þér finnst þú ennþá ekki vita nóg eða þinni spurningu var ekki svarað, ekki hika við að hafa samband!

15. Typpi.jpg

TYPPIÐ

Typpið er ytra kynlíffæri hjá þeim sem fæðast með XY litninga. Það eru líka til innri kynlíffæri. 

Ytri

Typpið

Pungurinn

Innri

Eistun

Sáðrásin

Þvagrásin

Blöðruhálskirtill

typpið
skapabarmar
snípur
leggngarop
þvagrásarop
innri xx
ytri xx
leg
leggöng
eggjastokkar
eggjaleiðarar
qa xx
pugur

Ytri kynfæri XY

14_Typpi_Utan_.jpg

Limurinn (e. penis/shaft)

Limurinn sjálfur er gerður úr svokölluðum risvef. Hann getur fyllst af blóði við örvun og þá verður standpína. Lengd typpa breytist eftir því hvort það er ris eða ekki. Lengdin getur verið allt frá 2cm upp í 20cm. Meðallengd typpa árið 2015 var mæld 9,16cm í slökun og 13,24cm í risi. 

 

Ysti endi limsins kallast kóngur (e. glans penis) og er næmasti hluti typpisins. Þar er þvagrásaropið þar sem þvagið kemur út. Hjá þeim sem hafa ekki farið í umskurð er húð sem hylur vanalega kónginn og kallast forhúðin. Hún dregst aftur á bak við holdris/standpínu. Við umskurð er forhúðin fjarlægð í hreinlætis eða trúarlegu skyni, þá vanalega snemma eftir fæðingu. Undir forhúðinni geta safnast óhreinindi (stundum kallað typpaostur) og því er mikilvægt að toga forhúðina aftur og þrífa vel þar undir - þó ekki með sápu því kóngurinn er með slímhúð sem getur þornað við sápunotkun. Volgt vatn dugir alveg. 

Sumir hafa forhúð sem er of þröng og hún nær þá ekki að dragast aftur yfir kónginn. Það getur gert samfarir og sérstaklega smokkanotkun óþægilega og hægt er að leita til læknis til að fá lausnir á þröngri forhúð. 

Pungurinn (e. scrotum)

Pungurinn er pokinn sem liggur undir limnum og geymir eistun. Hann er mjög næmur fyrir snertingu og eistun innan hans mjög viðkvæm fyrir hnjaski og sársauka. Pungurinn getur legið mislangt frá líkamanum eftir hitastigi, en hans hlutverk er að vernda sæðisfrumurnar og halda réttum hita á þeim. Þess vegna dregst pungurinn inn við mikinn kulda en getur hangið lengra frá líkamanum ef það er of heitt. 

ytri xy
limur

Innri kynfæri XY

15_Typpi_Med_Merkingum.jpg

Eistun (e. testicles)

Eistun eru geymd innan í pungnum. Flestir eru með tvö eistu sem sjá um að framleiða sæðisfrumur og hormón eins og testósterón. Eistun geta framleitt allt að 300 milljón sæðisfrumur á dag!

Langflest eistu eru misstór og liggja ekki alveg í sömu hæð. Þau eru mjög viðkvæm og því er mikil sársauki ef högg kemur á eistun. Mikil og stöðug eymsli í eistum geta verið merki um sjúkdóm og mikilvægt að láta lækni líta á þau. Fæstir sjúkdómar eru hættulegir og létt að lækna. 

Eistnakrabbamein er líka tiltölulega algengt á ungum aldri og mælt að þreifa eistun reglulega. Þá er annað eistað skoðað í einu og leitað eftir óeðlilegum eymslum eða litlum hnútum sem geta verið á stærð við hrísgrjón eða baun. Aftast á eistanu liggur eistnalyppan svokölluð - hún á að vera með óreglulegri áferð en eistað sjálft og er oft aumari en eistað. Það er eðlilegt. Regluleg skoðun gerir þér kleift að finna betur allar breytingar sem verða á eistanu.

Sáðrásin (e. vas deferens)

Sáðrásin byrjar í eistunum og ber sæðisfrumur þaðan til sáðblöðrunnar. Hún myndar um 70% af rúmmáli sæðisins og geymir það fram að sáðláti við fullnægingu. Það eru tvær sáðrásir - ein tengd hvoru eista.

Þvagrásin (e. ureter)

Þvagrásin fer bæði með þvag frá þvagblöðrunni og sæði frá sáðblöðrunni. Hún ber einnig forsæði (e. precum) sem myndast í klumbukirtlinum. Það eru engar sáðfrumur í forsæði en sáðfrumur geta hinsvegar lifað í nokkra daga í þvagrásinni. Forsæði getur þessvegna stundum dugað til þess að bera með sér sáðfrumur ef kynlíf er stundað án smokks - þá getur orðið getnaður þó að fullnæging verði ekki inni í leggöngunum (þ.e. pull-out aðferðin er notuð). 

Blöðruhálskirtill (e. prostate)

Blöðruhálskirtillinn sér m.a. um að mynda meiri vökva fyrir sæðið, sem gerir sáðfrumum auðveldara að synda í. Hann er mjög næmur fyrir snertingu og vegna staðsetningar hans má örva blöðruhálskirtilinn í gegnum endaþarm. Upp úr fertugsaldri stækkar kirtillinn og getur valdið erfiðleikum við að pissa. Hjá ungu fólki eru erfiðleikar við þvaglát vanalega ekki merki um þessa góðkynja stækkun á kirtlinum og þá er mikilvægt að fara í skoðun. 

innri xy
eistu
sáðrá
þvagrás
prostate

SPURT OG SVARAÐ

Um XY kynfæri

Afhverju er fjólublá lína undir typpinu mínu?

Það er mjög eðlilegt. Þetta er bláæð sem er til staðar í öllum typpum en getur verið sýnilegri hjá sumum útaf þykkt og lit húðar.

Forhúðin mín er allt of löng, hvað á ég að gera?

Ef forhúðin er það löng að hún hrjáir manni í daglegu lífi þá getur verið sniðugt að fara til læknis og stytta hana örlítið. Forhúðir eru mjög mislangar og ekkert óeðlilegt er við það.

Hvað er eðlilegt magn af sæði við fullnægingu?

Venjulega koma um 2-5ml af sáðvökva við sáðlát, sem er svona eins og ein teskeið. Sá vökvi inniheldur kringum 200-500 milljón sæðisfrumur.

Ef þér finnst þú ennþá ekki vita nóg eða þinni spurningu var ekki svarað, ekki hika við að hafa samband!

4.Hvað_er_Kynlíf_(1).jpg

Rassinn

Allir fæðast með rass og þar af leiðandi endaþarm. 

qa xy
rass
15_Typpi_Med_Merkingum.jpg
13_Píka_MeD_Merk.jpg

Endaþarmsopið (e. anus)

Endaþarmsopið er við botninn á endaþarminum. Þar eru tveir sterkir hringvöðvar - annar sem við stjórnum sjálf og gerir okkur kleift að halda í okkur hægðum. Það þarf mikil átök til að slíta þennan sterka hringvöðva og ansi sjaldgæft að það gerist við endaþarmsmök ef farið er rétt að. Líklegra er að rifur/sár komi í endaþarmsopið sjálft, sem gengur til baka en getur verið sýkingarhætta. Þrálát sár við endaþarmsop er eitthvað sem er gott að láta lækni kíkja á. 

Endaþarmurinn (e. rectum)

Endaþarmurinn er síðasti hluti meltingarkerfisins og tekur við af ristlinum. Endaþarmurinn er mjög viðkvæmur og með mikið af háræðum sem geta rifnað og valdið smávægilegum blæðingum. Það getur gerst við hægðatregðu eða við endaþarmsmök. Þess vegna er mikilvægt að fara allaf varlega í innsetningu inn í endaþarminn. 

Afþví endaþarmurinn er með háræðaríka slímhúð geta kynsjúkdómar líka smitast við endaþarmsmök. Þess vegna þarf alltaf að nota smokk ef bólfélaginn er óviss hvort hann sé með kynsjúkdóm eða ekki. Svo virkar smokkurinn líka til að halda frá bekteríum og mögulegum hægðum úr endaþarminum. 

Endaþarmurinn bleytir sig ekki sjálfur og því er mikill núningur við húðina innan hans. Það er lykilatriði að nota sleipiefni við endaþarmsmök til að koma í veg fyrir sár og óþægindi. 

Skemmtileg staðreynd um endaþarminn er að hann virkar eins og ryksuga - það er þrýstingsmunur innan í endaþarminum og ef litlir hlutir eru settir inn í endaþarm þá sogast þeir alla leið upp að byrjun ristilsins. Þá þarf læknisaðstoð til að ná hlutnum út. Þess vegna er ekki mælt með innsetningu hluta í endaþarm nema þeir séu sérstaklega hannaðir til þess. Svoleiðis hlutir hafa þykkan og góðan botn á sér sem koma í veg fyrir að hluturinn sogist langt inn í endaþarm. 

Smá hægðir eru eðlilegur hluti af endaþarmsmökum - það að skola endaþarminn mikið er ekki sniðugt. Langbest er að nota nóg af sleipiefni og smokk þegar endaþarmsmök eru stunduð en þó er hægt að leyfa sér að skola endaþarminn fyrir kynlíf ef það er gert með löngu millibili og framkvæmt rétt. 

  • Notið bara volgt vatn! Kranavatn er möguleiki en saltlausn (saline) er best. Enginn annar vökvi þarf að fara í endaþarminn. 

  • Losið um innri hringvöðvann með léttri snertingu - ytri hringvöðvinn slakar eftir stjórnun.

  • Setjið vatnið inn með sérstöku enema/douche - notið sleipiefni til að koma stútnum þægilega inn. Einn fótur upp á klósettsetu hjálpar til við innsetningu. 

  • Það þarf ekki mikið vatn! Sprautið þeim skammti sem kemst fyrir í sprautunni og látið það duga. 

  • Ef hægt er, haldið vökvanum inni í nokkrar sekúndur áður en honum er sleppt út aftur - helst í klósett eða sturtuna.

  • Það getur tekið allt að klukkutíma fyrir allan vökvann að skila sér út - ekki vaða beint í kynlíf eftir skolun.

  • Reynið að skola ekki oftar en einu sinni á dag, 2-3 daga vikunnar. 

SPURT OG SVARAÐ

Um rassinn

Eru endaþarmsmök slæm fyrir mig?

Endaþarmsmök hafa ekki slæm áhrif á mann og geta verið mjög góð ef maður stundar þau rétt. Mikilvægt er að undirbúa endaþarminn með t.d. Fingri og nota nóg af sleipiefni. Manneskjan þarf að vera slök og tilbúin því annars slakar vöðvinn ekki í endaþarminum og þá er erfitt að koma einhverju inn. Einnig er mikilvægt, ef maður ætlar að nota hlut/dót, að hluturinn sé með stoppara/kanti á endanum, því endaþarmurinn virkar eins og ryksuga. Það er líka sniðugt að nota smokk við endaþarmsmök uppá sýkingahættu. 

Hvað er rimjob?

Það er þegar endaþarmurinn er sleiktur. Mikilvægt er að gæta hreinlætis það sem miklar bakteríur eru við endaþarmsopið. Það er t.d. hægt að klippa smokk og setja hann fyrir opið og sleikja þannig, eða kaupa töfrateppi.

Hvað ef ég sting honum óvart inn í rassinn?

Þá er sniðugt að skipta um smokk, því endaþarmurinn er með bakteríur sem ekki er æskilegt að fá annars staðar. Það getur verið erfitt að fara óvart í rassinn því hann er frekar þröngur við venjulegar aðstæður.

Ef þér finnst þú ennþá ekki vita nóg eða þinni spurningu var ekki svarað, ekki hika við að hafa samband!

qa rass
bottom of page