top of page

LGBTQIA+

Hvað er þetta 'hinsegin'?

  • Í stuttu máli er það regnhlífarhugtak þ.e. það nær yfir alla sem eru ekki gagnkynhneigðir og cískynjaðir (sjá kynvitund). Sem regnhlífarhugtak geymir 'hinseginn hópurinn' ótal marga undirhópa með sína eigin undirhópa og er það þá í tengslum við kynhneigð, kynvitund eða bæði.

  • Oft er talað um LGBTQIA+ samfélagið, þar sem hver stafur táknar undirhóp Hinsegin. Það er Lesbian, Gay, Bisexual, Transgender, Queer/Questioning, Intersex, Asexual og allt þar á milli eða utan við (+)

Pride Parade

KYNHNEIGÐ

Hverjum þú hrífst af, kynferðislega eða rómantískt

Unipeople_edited.jpg

KYNVITUND

Hvernig þú upplifir þig
strákur, stelpa, hvorugt eða eitthvað þar á milli

PREPARING%20RED%20CLOVER%20TISANE%20_edited.jpg

INTERSEX

Alveg ótengt kynhneigð og kynvitund

LBGT: Get Involved
Pride Parade

KYNHNEIGÐ

Hvað er kynhneigð?

 

Hún segir einfaldleg til um hverjum þú getur laðast að kynferðislega/líkamlega/andlega byggt á þeirra kyni miðað við þitt eigið kyn. Eins og kyn þá getur kynhneigð verið mjög breytileg og jafnvel breyst oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Mörgum finnst gott að skorða sig inn í hóp eftir skilgreiningu á meðan aðrir kjósa að elska óháð þeim. Fólk er alls konar, og þess vegna er kynhneigð það líka.

 

Til að telja upp skilgreindar kynhneigðir má nefna

Gagnkynhneigð (e. heterosexual)

Samkynhneigð (e. homosexual)

Tvíkynhneigð (e. bisexual)

Pankynhneigð (e. pansexual)

Eikynhneigð (e. asexual)

LBGT: About

GAGNKYNHNEIGÐ

Gagnkynhneigðir einstaklingar laðast að fólki af andstæðu kyni þ.e. karl laðast að konu og öfugt. Sem algengasta og mest áberandi kynhneigðin í okkar samfélagi er oft gengið út frá því að einstaklingar séu gagnkynhneigðir en þeir þurfa sjaldnast að berjast fyrir sinni kynhneigð eða verða fyrir áreiti hennar vegna.

SAMKYNHNEIGÐ

Samkynhneigðir einstaklingar laðast að einstakling að sama kyni þ.e. kona laðast að konu og öfugt. Þá er hægt að tala um samkynhneigða  karla sem homma en konur sem lesbíur. Margar ranghugmyndir eða staðalímyndir (e. stereotypes) fylgja samkynhneigðum, þá helst að hommar séu alltaf kvenlegir og lesbíur séu alltaf karlmannlegar (sbr. trukkalessa).  Samkynhneigðir, eins og allir aðrir, eru alls konar og margir passa alls ekki inn í þessar stöðluðu myndir. Aðrir gera það en allir eiga þeir sameiginlegt að eiga rétt á að skilgreina sína kynhneigð eins og hentar. 

Algengur misskilningur er að samkynhneigð sé bara andstæða gagnkynhneigðar og þar með séu valmöguleikarnir upp taldir. Svo er ekki, þar sem margir falla þar á milli eða jafnvel fyrir utan!

TVÍKYNHNEIGÐ

Tvíkynhneigðir einstaklingar laðast að fleiri en einu kyni, oft lýst sem aðlöðun að 'bæði konum og körlum.' Mikið hefur þurft að berjast fyrir réttinum að vera ekki troðið undir gagn- eða samkynhneigða skilgreiningu, en kynhneigð manneskju breytist ekki sama hvaða einstakling hún er í sambandi með á þeim tíma. Þ.e.a.s. tvíkynhneigð stelpa verður ekki gagnkynhneigð þótt hún byrji með strák eða samkynhneigð í sambandi með stelpu. Einnig getur aðlöðunin að ólíku kynjunum verið mismikil eða breytileg eftir tíma eða manneskjum.

PANKYNHNEIGÐ

Pankynhneigðir einstaklingar skilgreinast á svipaðan hátt og tvíkynhneigðir, en samt ekki. Línan á milli getur verið óljós en áherslu atriðið er að pankynhneigðir laðast frekar að persónuleika/einstakling óháð kyni eða kyntjáningu (sjá kynvitund). Sumir tala um kyn-blindni. Eins og flestir hafa pankynhneigðir þó ákveðnar hugmyndir um hvað þeim finnst aðlaðandi þegar kemur að útliti en kyn þarf ekki að spila þar inn í.

EIKYNHNEIGÐ

Eikynhneigðir einstaklingar hafa lengi vel (og eru í raun enn) verið frekar ósýnilegur hópur og lítt talað um þá. Að vera eikynhneigður er að laðast lítið sem ekkert að öðru fólki, þá annaðhvort kynferðislega (e. sexual attraction), tilfinningalega (romantic attraction) eða bæði. Sem dæmi getur eikynhneigður einstaklingur laðast tilfinningalega að öðrum aðila, en haft engan áhuga á kynlífi eða öðru tengdu. Þetta er ólíkt vali að stunda ekki kynlíf eða skírlífi (e. celibacy). Í eikynhneigð er kynferðisleg löngun ekki til staðar en sumir geta þó valið að stunda kynlíf af einhverjum toga.

Ef telja ætti upp allar mögulegar gerðir af kynhneigð mætti lengi telja. Þess vegna er kynhneigð oft líkt við litróf (e. spectrum) þar sem valmöguleikarnir eru endalausir, sumir kannski svipaðir en allir jafn réttmætir. Líkt og margt annað í fari fólks getur kynhneigð þróast og breyst og nýjar skilgreiningar gefa ekki til kynna að sú fyrri hafi verið röng. Stundum getur bara tekið tíma að finna sig. Eða finna sig aftur, eins oft og maður finnur þörf fyrir.

 

Hóparnir fimm hér að ofan eru ágætir til að átta sig betur á fjölbreytileikanum en mikilvægast er að samþykkja allar kynhneigðir og gera aldrei ráð fyrir einu né neinu fyrir annað fólk. Engin nema þú sjálfur getur sagt til um þína kynhneigð, ef þú á annað borð vilt skilgreina hana.

Gagnkynhneigð
Samkynhneigð
Tvíkynhneigð
Pankynhneigð
Eikynhneigð

SPURT OG SVARAÐ

Um kynhneigð

VIÐ HVERN GET ÉG TALAÐ UM KYNHNEIGÐ?

Samtökin '78 eru með ráðgjafatíma, stuðningshópa, fræðslur og allskonar hittinga!

Það er alls engin nauðsyn. Fólk er eins og það er og er velkomið í ráðgjöf.

Þú og ráðgjafi vissulega, starfsfólk skrifstofunnar sem tekur á móti ráðgjafabókun þinni og svo það starfsfólk sem er statt á skrifstofunni þegar þú átt tíma. Engar áhyggjur þó, allt starfsfólk og sjálfboðaliðar hafa skrifað undir þagnareið.

Að sjálfsögðu, ef þú vilt og treystir einhverjum til að koma með þá er það velkomið. Gott er að láta ráðgjafa vita áður en tími hefst ef einhver kemur með þér.

Það kostar ekkert að koma í ráðgjöf fyrstu þrjá til fimm tímana. Ef þú vilt halda áfram að koma til ráðgjafa eftir þrjá til fimm ráðgjafatíma þá er best að ræða það við þinn ráðgjafa og semja um greiðslu.

Hvað sem er og allt sem þú treystir þér til að tala um.

ÉG VARÐ FYRIR OFBELDI VEGNA ÞESS AÐ ÉG ER HINSEGIN, HVAÐ Á ÉG AÐ GERA?

Ef þú hefur orðið fyrir ofbeldi vegna hinseginleika er mikilvægt að tilkynna brotið hjá lögreglu. Hægt er að hringja í lögreglu í 112 eða tilkynna brot rafrænt hér: Lögreglan | Lögregluvefurinn.

Samtökin ‘78 halda einnig gagnagrunn yfir ofbeldi, mismunun, áreiti, hatursorðræðu eða hatursglæp á veg Samtakanna ‘78 hér: 
Tilkynna ofbeldi, mismunun, áreiti, hatursorðræðu eða hatursglæp. 
Samtökin ‘78 bjóða einnig upp á lögfræðiráðgjöf. Lögfræðiráðgjafi Samtakanna getur lagt mat hvort um stærra mál er að ræða sem þarfnast dómstóla. Í slíkum tilfellum vísar lögfræðiráðgjafinn á viðeigandi aðila. Hægt er að bóka lögfræðiráðgjöf hér: 
Bóka ráðgjöf.

Einnig bendum við á Bjarkarhlíð, en Bjarkarhlíð er þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Þar gefst einstaklingum kostur á viðtölum og ráðgjöf hjá félagsráðgjöfum, lögreglu og lögfræðingum þeim að kostnaðarlausu og á þeirra forsendum. Hægt er að bóka tíma hér: Bjarkarhlíð.

HVERNIG KEM ÉG ÚT FYRIR FORELDRUM?

Það er allur gangur á hvernig og hvort fólk kemur út fyrir foreldrum sínum og fer það að miklu leyti eftir sambandinu við foreldrana. Gott getur verið að setjast niður og segja frá í rólegheitum, skrifa bréf eða póst til þeirra eða fá aðstoð frá einhverjum sem þú treystir eins og kennara, vin eða maka. 

Ef þér finnst þú ennþá ekki vita nóg eða þinni spurningu var ekki svarað, ekki hika við að hafa samband! 

Upplýsingar fengnar frá heimasíðu Samtökin '78.

Unipeople_edited_edited.jpg

KYNVITUND

Orðið 'kyn' er flóknara en það virðist við fyrstu sýn, þar sem það er oft notað til að lýsa mjög ólíkum hlutum.

 

Líffræðilegt kyn - algengasta notkun á orðinu kyn. Farið er eftir líffræðilegum einkennum svosem kynfærum og hormónatjáningu. Kyni sem er úthlutað við fæðingu (stelpa/strákur) fer bara eftir líffræðilegu kyni barns. 

Kynvitund - upplifun einstaklinga af eigin kyni þ.e. sem kona, karl, bæði eða eitthvað á milli/utan við skilgreindu kynin tvö. Þarf ekki að samsvara líffræðilegu kyni.

Kyntjáning - hvernig fólk kýs að tjá sig með klæðnaði, hárgreiðslu, hegðun osfrv. Þarf ekki að samsvara kynvitund né líffræðilegu kyni og þarf ekki að tengjast kynhneigð.

LBGT: Kynvitund
Líffræðilegt kyn
Kynvitund
Transgender
Kynsegin
Drag
Kynleiðrétting

LÍFFRÆÐILEGT KYN

Líffræðilegu kyni er oftast flokkað í stelpur (kvenkyn) eða stráka (karlkyn) eftir kyneinkennum. Kyneinkenni vísa til litninga, kynkirtla og líffærafræðilegra sérkenna manneskju, til dæmis æxlunarfæra, uppbyggingar kynfæra, hormónastarfsemi, vöðvauppbyggingar, dreifingar hárs, brjóstavaxtar og/eða hæðar.

Kvenkyn er skilgreint eftir XX litningum, píku, leggöngum, legi og eggjastokkum.

Karlkyn er skilgreint eftir XY litningum, typpi, pung og eistum.

Utan þessarar tvíhyggju (e. binary genders) má þó finna m.a. Intersex fólk, sem fæðist hvorki með þessi "stöðluðu" líffræðileg einkenni stelpu né stráks.

KYNVITUND

Kynvitund er aðeins flóknari en líffræðilegt kyn og er mun óskilgreindari -- kynvitund er frekar lýst sem rófi (e. spectrum) eins og litir. Þá má ímynda sér að líffræðilegu kynin séu svartur og hvítur og allir litir á milli geta verið til!

Fólk þarf ekki að lenda á kven- eða karlkyns endanum, eða neinsstaðar þar á milli. Kynvitund getur verið hvernig sem er. Í The Gender Book er kyni lýst sem plánetu og bókin er góð lesning fyrir áhugasama.

Þegar líffræðilegt kyn passar við kynvitund er talað um að fólk sé sískynja (e. cisgender). Fólki líður vel í eigin líkama. Andstæðan við að vera sískynja er að vera trans.

TRANSGENDER

Transfólk (e. transgender) upplifir sig aftur á móti ekki vel í eigin líkama. Misræmi er milli líffræðilegs kyns og kynvitundar.

Þá er ekki einungis átt við fók sem vill breyta líffræðilega kyni sínu úr einu yfir í annað þ.e. gangast undir kynleiðréttingu.

 

Undir transgender regnhlífinni er hægt að finna

 

Transsexual einstaklingar eru kannski best þekktir, en það eru einstaklingar sem gangast undir kynleiðréttingu og fara þá oftast yfir í annað af tveimur skilgreindu líffræðilegu kynjunum (karl eða kona).

Þá er trans kona kvenmaður sem fæddist með typpi en trans karl karlmaður sem fæddist með píku, til að einfalda útskýringar. Stundum er talað um transkonur sem mtf (male-to-female) og transmenn sem ftm (female-to-male). 

Oftast falla transsexual einstaklingar inn í annaðhvort af skilgreindu kynjunum (þ.e. eru gender binary) en eins og með flest annað í kynvitund eru engar reglur.

KYNSEGIN

Kynsegin eða kynlausir einstaklingar falla utan skilgreindu kynanna tveggja. Þau geta þá skilgreint sig innan beggja kynja (e. bigender), með breytilega kynvitund (e. genderfluid) eða gjörsamlega utan tvíhyggjunnar (e. non-binary).

Fólk innan kynsegin hópsins velur sér oft önnur fornöfn heldur en hann/hún. Algengt er að fólk noti nýyrðið hán eða fleirtöluna þau (e. they/them) fyrir kynlaust fornafn, ásamt því að nota hvorugkyns lýsingarorð (þ.e. ég er svangt, hán er þreytt). Sumir vilja þó nota bæði hann og hún eða bara annað hvort. Það er gott að spyrja fólk hvaða fornöfn þau nota og bera virðingu fyrir því. 

KLÆÐSKIPTI EÐA DRAG

Klæðskiptingar (e.crossdresser) á við um fólk sem að klæðir sig í föt „af öðru kyni“. Einstaklingar sem skilgreina sig á þann hátt undirgangast oftast ekki neinskonar kynleiðréttingu, en geta valið sér nýtt nafn eða jafnvel farið í einhverskonar aðgerðir kjósi þau það.

Oftast eru einstaklingarnir sátt með eigin líkama og kynfæri en kjósa að tjá sig á óhefðbundinn hátt, t.d. í gegnum fataval. Þetta spilar þá meira inn í kyntjáningu heldur en í raun kynvitund.

Dragi er oft ruglað saman við það að vera transsexual eða klæðskiptingur en þar er stór munur á. Þegar að einstaklingur klæðist dragi þá er oftast um einhverskonar persónugervingu að ræða þar sem að einstaklingur fer í búning og býr til mjög ýkta persónu. Drag er því oft notað sem listform eða jafnvel í pólítískum tilgangi.


Algengt er að talað sé um dragdrottningar sem karlmenn sem klæða sig sem konur og dragkóngar væru þá konur sem klæða sig sem karlar. Í raun getur samt hver sem er verið dragdrottning eða dragkóngur sama hver kynvitund þeirra er, enda snýst drag um mikið meira heldur en að vera karlmaður sem fer í kjól eða kona sem fer í jakkaföt. Skiptar skoðanir eru hvort að drag fellur undir „transgender“ en burtséð frá því er mikilvægt að gera greinarmun á því og öðrum hópum.

KYNLEIÐRÉTTING

Kynleiðrétting felur í sér langt og strangt ferli í heilbrigðiskerfinu undir eftirliti nefndar sem starfar á Landspítalanum.

 

Ferlið byrjar á því að viðkomandi leitar til nefndarinnar og byrjar formlegt ferli þar. Þá tekur við fyrsta skrefið sem er oftast að tilkynna vinum og vandamönnum um þá ákvörðun, velja sér nýtt nafn og byrja að lifa í samræmi við sína kynvitund. Mismunandi er eftir einstaklingum hversu langt er þangað til næsta skref er tekið, en að jafnaði mega einstaklingar byrja í hormónaferli ári eftir þetta svokallaða undirbúningsstig (e. real life test).

 

Hormónameðferðin er mjög inngripsmikil og hefur mikil áhrif á bæði líkama og sál. Líkamin breytist líkt og þegar að einstaklingar fara á kynþroska, nema bara með mikið meiri krafti yfir styttri tíma. Fyrir trans konur þá breytist fitumyndun (t.d. stærri mjaðmir og brjóst myndast), hárvöxtur minnkar, húðin breytist, o.s.frv. Fyrir trans karla breytist fitumyndun, hárvöxtur eykst (t.d. skeggvöxtur og líkamshár), röddin dýpkar o.s.frv. Oft upplifir fólk geðsveiflur og breytingu á matarlyst, en miklar hormónabreytingar hafa óneitanlega áhrif á margt annað en eingöngu líkama. Oftast jafnast svo hlutirnir út þegar einstaklingar eru búnir að vera á hormónum til lengri tíma. Helstu breytingar eiga sér stað frá þremur mánuðum upp í tvö ár.

Samkvæmt lögum sem kveða á um kynleiðréttingarferli og tímaramma þarf trans fólk að vera í formlegu ferli í a.m.k. 18 mánuði áður en viðkomandi getur sótt um að fá að undirgangast kynleiðréttingaraðgerð. Einstaklingar mega undirgangast aðrar aðgerðir fyrir það, á borð við andlitsaðgerðir, brjóstaaðagerðir, brjóstnám, legnám eða aðrar aðgerðir sem að fólk kýs. Mismunandi er eftir einstaklingum hvaða aðgerðir einstaklingar kjósa að undirgangast.

 

Algengt er að trans karlar undirgangast brjóstnám þ.e. láti fjarlægja brjóstin. Hjá transkörlum eru tvær aðal leiðir í boði. Í gegnum hormónaferli stækkar snípurinn þeirra og verður að litlu typpi sem er svo dregið út og auk þess er búin til sekkur úr skapabörmum og settir sílikon púðar inn í til að búa til eistu. Í þessu tilfelli verður typpið undir „meðalstærð“ en einstaklingar hafa fulla tilfinningu. Einnig er hægt að taka húð af líkama og mynda getnaðarlim sem er svo græddur á viðkomandi. Einstaklingar munu samt sem áður í flestum tilfellum hafa litla sem enga tilfinningu vegna skorts á taugaendum og geta ekki náð reisn án aðstoðar pumpu.

 

Fyrir trans konur er kynleiðréttingaraðgerðin mun þróaðri og fullkomnari heldur en fyrir trans karla. Það má segja að það sé vegna þess að það sé auðveldara að búa til kynfæri þegar þú ert með „efnivið“ heldur en að þurfa að bæta einhverju við eins og í tilfelli trans karla. Hjá trans konum eru leggöng, snípur og skapabarmar búnir til og virka þeirra kynfæri líkt og sís kvenna.

Til að ítreka það! þá fer ekki allt transfólk í gegnum aðgerðir enda eru það ekki kynfæri eða kyneinkenni sem að skapa manninn eða konuna heldur þeirra kynvitund.

SPURT OG SVARAÐ

Um kynvitund

HVAÐ ER KYNRÆNT SJÁLFRÆÐI?

Kynrænt sjálfræði eru lög sem samþykkt voru á Alþingi 18. júní 2019. Lögin fela í sér tvær meginbreytingar. Sú fyrri er hlutlaus kynskráning, þ.e. að hægt verður að skrá sig sem hvorki karl né konu – táknað með X á skilríkjum. Seinni meginbreytingin er að fólki verður frjálst að gera breytingar á kynskráningu sinni án þess að þurfa fyrst greiningu á svokölluðum „kynáttunarvanda“ af hendi heilbrigðiskerfisins með tilheyrandi biðtíma og óvissu. Börn undir 18 ára aldri geta jafnframt skráð sitt rétta kyn og nafn í Þjóðskrá með samþykki foreldra. Ef samþykki foreldra liggur ekki fyrir geta þau leitað til sérstakrar sérfræðinefndar.

HVERNIG BYRJA ÉG TRANS FERLIÐ?

Fyrir fólk yngra en 18 ára sem hefja vill trans ferli er haft samband við Barna-og Unglingageðdeild Landspítalans (BUGL).


Fyrir fólk eldra en 18 ára er haft samband við trans teymi Landspítalans í gegnum transteymi@landspitali.is. Hægt er hafa samband við þjónustuver Landspítalans í síma 543-1000.

Það eru til allskonar stuðningshópar fyrir transfólk, bæði innan og utan Samtakanna. 

Ef þér finnst þú ennþá ekki vita nóg eða þinni spurningu var ekki svarað, ekki hika við að hafa samband!

Upplýsingar fengust hjá Samtökin '78 og Trans Ísland.

INTERSEX

PREPARING%20RED%20CLOVER%20TISANE%20_edi

Í einfaldri útskýringu er Intersex lýsing á líffræðilegu kyni einstaklinga sem falla utan staðlaðra kyneinkenna (sjá líffræðilegt kyn).
Þá eru það einstaklingar sem geta t.d.haft eggjastokka og typpi eða eistu og brjóst osfrv. Einnig getur verið mikið hormóna ójafnvægi þar sem kynlitningarnir (X og Y) eru ekki eins og hjá "hefðbundinni" konu (XX) eða karli (XY).

LBGT: Intersex
17844162409961634.jpg

Áætlað er að það sé jafn algengt að fæðast intersex og að fæðast með rautt hár!

Intersex er ekki það sama og tvíkynjungur (e. hermaphrodite) en það þýðir að vera með karl- og kvenkyns líffæri sem eru öll fullvirk. Við sem spendýr getum ekki virkað þannig.

Náttúrulegir intersex líkamar eru oftast heilbrigðir. Intersex einstaklingar geta oft þurft hormónagjöf, en sú þörf getur stafað af fyrri inngripum lækna

18016933318269067.jpg

Læknainngrip

Læknainngrip miða alla jafna að því að láta intersex líkama aðlagast hugmyndum um karl- og kvenlíkama. 

Skurðaðgerðirnar leggja meiri áherslu á útlit en ekki næmni og kynheilbrigði. Börn geta ekki veitt upplýst samþykki um skurðaðgerðir. 

Mjög margir intersex einstaklingar líða fyrir þá líkamlegu og sálfræðilegu afleiðingar sem slíkar aðgerðir geta haft í för með sér ásamt því að finna fyrir skömm og afleiðingum leyndarinnar. 

Aðgerð á kynfærum geta haft áhrif á líf intersex einstaklinga ævilangt.

SPURT OG SVARAÐ

Um intersex

Er Intersex ekki það sama og að vera trans?

Ólíkt trans og kynsegin fólki er intersex fólk ekki hluti af trans-regnhlífinni. Intersex vísar ekki til fjölbreytileika í kynvitund, því það að vera intersex snýst ekki um kynvitund eða kynleiðréttingu. Intersex er hugtak yfir meðfæddan breytileika á líffræðilegum kyneinkennum. Hægt er að vera intersex án þess að vita af því.

Sumir einstaklingar með intersex breytileika fá kynskráningu sinni breytt og að sumir þeirra skilgreina sig sem trans. Þetta er engu merkilegra en þegar intersex eða trans einstaklingar eru samkynhneigðir. 

Getur intersex fólk eignast börn?

Flestar gerðir af intersex valda ófrjósemi þar sem kynfærin hafa ekki fulla virkni, en þó ekki alltaf! Hægt er að vera með virkar sæðisfrumur og lim eða leg og eggjastokka sem framleiða egg. Sumt intersex fólk er líka ófrjótt vegna aðgerða sem gerðar voru við fæðingu eða mjög ungan aldur. Auk þess er ættleiðing alltaf möguleiki eða að taka börn í fóstur.

Eru intersex alltaf hinsegin í kynhneigð eða kynvitund?

Það fer eftir fólki hvernig þau skilgreina kynvitund sína (hvort þau komi fram "kvenlega", "karlmannlega" eða eitthvað þar á milli) og með hverjum eða hvort þau vilji vera í sambandi. Sumir intersex einstaklingar eru LGB+ en aðrir eru gagnkynhneigðir.

Intersex fólk heyrir undir hinsegin vegna intersex stöðu sinnar og deildrar reynslu af hómófóbíu, ekki vegna kynhneigðar eða kynvitundar.

Ef þér finnst þú ennþá ekki vita nóg eða þinni spurningu var ekki svarað, ekki hika við að hafa samband!

Upplýsingar fengust frá Intersex Ísland og ÖtilA. 

bottom of page