Hvað er Ástráður?
Ástráður, kynfræðslufélag læknanema, var stofnað árið 2000 af læknanemum við Háskóla Íslands. Hugmyndin að slíku forvarnarstarfi kviknaði með þátttöku í alþjóðasamstarfi læknanema og má finna sambærileg kynfræðslufélög í öðrum löndum. Undirbúningsvinna hófst haustið 1998 en formleg starfsemi félagsins hófst árið 2000. Þá var markmiðið í grófum dráttum tvíþætt, annars vegar að sinna forvarnarstarfi sem stuðlaði m.a. að bættu kynheilbrigði og lækkuðu nýgengi kynsjúkdóma og hins vegar að þjálfa læknanema í að ræða um málefni er varða kynheilbrigði. Með tímanum þróaðist starfsemi félagsins yfir í fjölþættari og almennari fræðslu um kynheilbrigði.
Í fræðslunni leggjum við í Ástráði áherslu á heilbrigð samskipti og fjöllum um fjölbreyttar getnaðarvarnir, kynsjúkdóma, úrræði sem ungmenni geta nýtt sér og margt fleira. Fræðslan er á jafningjagrundvelli - ætluð öllum, óháð kyni, kynvitund og kynhneigð. Ástráður er einnig með fræðslu hér á vefsíðunni og á helstu samfélagsmiðlum.
Árlega heldur félagið fyrirlestra fyrir alla nýnema í framhaldsskólum landsins. Fræðslunni sinna 2. árs læknanemar, eftir að hafa tekið þátt í fræðsluviku á vegum Ástráðs, þar sem verðandi fræðarar sitja fyrirlestra ýmissa fagaðila og samtaka sem koma að kynheilbrigði. Eftirspurnin eftir fræðslu er svo mikil að félagið hefur einnig boðið grunnskólum og félagsmiðstöðvum að fá fyrirlestra gegn vægu gjaldi sem er nýtt í að fjármagna grunnstarfsemi félagsins. Þessari fræðslu sinna 3. árs læknanemar.
Helsta markmið Ástráðs er að auka fræðslu og umræðu um kynheilbrigði ungmenna bæði með fyrirlestrum í skólum landsins og með fræðsluefni á netinu.