Á kynþroskaaldrinum byrja kynfærin að þroskast og starfa. Líkaminn breytist úr líkama barns í líkama fullorðins einstaklings sem getur eignast barn.
Kynþroskinn
Efnisyfirlit
- Hvenær byrjar kynþroskinn?
- Hvað er kynþroski?
- Kynþroski hjá stelpum/XX einstaklingum
- Kynþroski hjá strákum/XY einstaklingum
- Spurt og svarað um kynþroskann
- Hvers lags útferð úr píku er eðlileg og hvað er óeðlilegt?
- Get ég pissað með túrtappa?
- Er hættulegt að sofa með túrtappa? En stunda kynlíf?
- Ef ég get ekki sett í mig túrtappa, eru leggöngin of þröng?
- Af hverju kemur alltaf typpaostur undir kónginn? Er hann hættulegur?
- Hver er meðalstærð á typpi?
- Á að vera fjólublá lína undir typpi?
- Viltu vita meira?
Hvenær byrjar kynþroskinn?
Það er mismunandi milli einstaklinga hvenær kynþroskinn byrjar, hann getur byrjað um 8 ára aldur hjá einhverjum en ekki fyrr en um 18 ára aldur hjá öðrum.
Algengast er þó að kynþroskinn byrji um 11-13 ára aldur. Yfirleitt hefst kynþroskinn heldur fyrr hjá einstaklingum með XX litninga.
Kynþroskinn varir frá einu ári upp í fimm ár.
XX einstaklingar eru orðnir kynþroska þegar þeir byrja að hafa blæðingar.
XY einstaklingar eru orðnir kynþroska þegar þeir fá sáðlát.
Hvað er kynþroski?
Hormón eru efni í líkamanum sem valda þeim breytingum sem verða við kynþroskann.
Í heilanum er kirtill sem heitir heiladingull sem sendir frá sér hormón sem berast til kynkirtlanna.
Kynkirtlarnir hefja þá framleiðslu kynhormóna. Kynkirtlarnir eru eggjastokkar hjá XX einstaklingum og eistu hjá XY einstaklingum. Kynhormón XX einstaklinga er estrógen og kynhormón XY einstaklinga er testósterón.
Kynhormónin berast með blóðinu á ýmsa staði í líkamanum og valda breytingum.
Kynþroski hjá stelpum/XX einstaklingum
Breytileiki
Kynþroski getur hafist á aldrinum 8-18 ára. Þetta er breytilegt aldursbil og mörgum finnst óþægilegt að vera fyrstir eða seinastir til að ganga í gegnum þessar breytingar.
Mikilvægt er þó að muna að allir ganga í gegnum þessar breytingar og fólk er misjafnlega fljótt að þroskast. Í raun eru það aðallega erfðir sem stjórna því hversu fljótt við þroskumst og því aldrei feimnismál hvenær þetta á sér stað.
Það getur verið mjög gott að opna sig við einhvern eldri, vini sína eða fjölskyldumeðlim til að fá ráð eða bara ræða líðan í kringum þetta skrítna ferli.
Ef áhyggjur eru til staðar varðandi kynþroska er hægt að hafa samband við heimilislækni eða skólahjúkrunarfræðing.
Brjóst
Á kynþroskatímabilinu byrja brjóst að myndast. Brjóstin þroskast í tveimur skrefum. Fyrri hluti þroskans kemur fram á kynþroskaaldrinum þegar brjóstin stækka. Seinni hluti þroskans kemur ef þú verður barnshafandi.
Algengast er að brjóstin byrji að myndast um 10-11 ára aldur en getur auðvitað byrjað fyrr eða seinna. Myndun brjósta byrjar sem smá bólga undir geirvörtunum. Á meðan brjóstin eru að þroskast/stækka er eðlilegt að finna fyrir eymslum í þeim. Þá finnst sumum þægilegt að vera í toppi eða brjóstahaldara til stuðnings. Brjóstin eru um 4-5 ár að þroskast. Erfðir og þyngd hafa meðal annars áhrif á lögun og stærð brjósta.
Eins og allt annað í líkamanum eru brjóst mismunandi og ólík. Sum eru stór og önnur lítil. Hægra og vinstra brjóst geta meira að segja verið mismunandi, sérstaklega á meðan þau eru að þroskast. Stór lítil eða óregluleg – þau eru öll hluti af líkamanum sem við eigum að elska.
Brjóstnám (brjóstin alveg fjarlægð) er aðgerð þar sem trans fólk, kynsegin fólk eða þeir sem hafa fengið eða eru í áhættu á að fá brjóstakrabbamein undirgangast.
Hár og rakstur
Þegar hár byrja að vaxa á líkamanum er það merki um að hann sé að þroskast. Hár vex á kynfærum (skapahár), undir höndum, á fótleggjum og handleggjum. Það er misjafnt eftir einstaklingum hversu mikið af líkamshárum vex og hvenær þau byrja að vaxa, oftast er það á aldrinum 9-13 ára.
Rakstur er alls ekki nauðsynlegur og persónubundið hvort fólk vilji raka kynfæri/handleggi/fótleggi/annað. Sumir vilja mögulega bara snyrta hárin en ekki raka þau alveg niður að húð.
Þú skalt passa vel upp á hreinlætið þegar þú ert að raka þig. Vertu með nýtt eða a.m.k. hreint blað í rakvélinni. Rakaðu þig í sturtu þegar húðin er heit og blaut. Notaðu rétta tegund af raksápu og einnig gæti verið gott að nota þess á milli kornasápu eða skrúbb til að hreinsa húðina og koma í veg fyrir að ný hár vaxi inn í húðina. Það eru til bakteríueyðandi krem sem gætu hjálpað og sérstök krem sem mælt er með að nota eftir rakstur.
Húðin við kynfærin er viðkvæm og því þarf að vanda sig mjög við umhirðu. Gott væri að fara til læknis og fá sýklalyf, töflur eða krem ef það koma kýli á húðina, bólga eða húðin verður heit og rauð.
Svitamyndun
Svitakirtlar eru dreifðir á yfirborði húðarinnar og verða virkari á kynþroskaaldrinum. Sviti er vökvi sem myndast í svitakirtlum og inniheldur vatn, sölt og úrgangsefni. Meginhlutverk svitans er að hafa stjórn á líkamshita og losa líkamann við úrgangsefni.
Svitakirtlar eru nánast alls staðar en mest svitamyndun er undir höndum, á fótum, milli læra og stundum undir brjóstum.
Ekki er mikil lykt af svitanum sjálfum. Ef hann fær að liggja á húðinni í nokkrar klukkustundir ná bakteríur að starfa í svitanum og það veldur svitalykt.
Nauðsynlegt er því að fara reglulega í sturtu, t.d. annan til þriðja hvern dag og alltaf eftir áreynslu. Það er ekki nauðsynlegt að nota alltaf sápu við daglegan þvott og alltaf ætti að nota hana í hófi.
Svitalyktareyðir getur aðstoðað og til eru margar ólíkar gerðir. Einhverjum finnst hjálpa að minnka svitalykt með að raka líkamshár undir höndum en það er persónubundið.
Útferð
Ljóst eða gulleit slím kemur frá leggöngum. Þetta kallast útferð og er hluti af eðlilegri starfssemi legganganna. Eins og stýrir í augum, þá er þetta leið píkunnar til að hreinsa sig!
Vegna hormónabreytinga er eðlilegt að útferð hefjist hjá stúlkum um 6 mánuðum áður en blæðingar byrja.
Það er alltaf einhver lykt af útferð og hún er ólík eftir einstaklingum. Það þýðir ekki að um óhreinindi sé að ræða. Það ætti að vera nóg að þrífa píkuna með vatni og sápur geta haft verri áhrif á bakteríuflóruna í leggöngunum. Lykt er eðlileg – en ef þér finnst hún breytast mikið og/eða kláði eða sviði fylgir þá er ráðlagt að leita til læknis eða ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing.
Tíðahringurinn
Eðlilegur tíðahringur getur verið 21-35 dagar. Tíðahringurinn er að meðaltali 28 dagar.
Fyrsti dagur tíðahringsins er sá dagur þegar blæðingar byrja. Miðað við 28 daga tíðahring gildir eftirfarandi:
Á 7. degi: Eggjastokkar byrja að þroska egg og undirbúa egglos.
Á 11.-16. degi: Egglos verður. Þá losnar egg úr eggjastokk í eggjaleiðara. Eftir það ferðast egg frá eggjaleiðara niður í leg.
Slímhúð legsins þykknar til að taka á móti frjóvguðu eggi. Ef eggið frjóvgast ekki þá þynnist slímhúðin á ný og blæðingar byrja.
Óháð lengd tíðahringsins líða um það bil 14 dagar frá egglosi að næstu blæðingum. Þetta ferli á sér stað þar til blæðingar hætta við tíðahvörf (meðalaldur er 51 árs).
Blæðingar
Algengast er að fyrstu blæðingar komi á aldrinum 11-13 ára. Þetta er þó breytilegt, sumir byrja á túr um 8 ára aldur á meðan aðrir byrja í kringum 18 ára aldur – og það er eðlilegt! Fyrstu blæðingar eru yfirleitt mjög litlar – oftast er það aðeins brúnn blettur sem kemur í nærbuxurnar. Blæðingar eru merki um kynþroska og að allir hlutar kynfæranna séu byrjaðir að starfa eðlilega. Þá er hægt að verða óléttur ef samfarir eru stundaðar án getnaðarvarna.
Hjá flestum standa blæðingar í 3-7 daga og koma á um það bil 28 daga fresti eða í byrjun hvers tíðahrings. Það er misjafnt hversu mikið blóð kemur en oftast er það ekki nema hálfur bolli. Þetta blóðtap hefur því sjaldan áhrif á líkamann en getur þó gert það ef járn skortir í fæðuna.
Hægt er að nota dömubindi, túrtappa, álfabikar eða túrnærbuxur til að taka við blóðinu á meðan blæðingum stendur. Blæðingar eiga ekki að hindra fólk frá því að gera neitt sem það gerir vanalega.
Algengt er að blæðingar séu óreglulegar fyrstu 2 árin eftir að þær byrja. Það þýðir að þá koma blæðingarnar ekki einu sinni í mánuði og stundum geta liðið allt að 2-3 mánuðir á milli blæðinga. Það getur tekið um 2 ár að fá reglulegan tíðahring, þangað til er líkamann að aðlagast hormónum. Það er sniðugt að merkja blæðingar inn á dagatal til að fylgjast með tíðahringnum.
Tíðaverkir
Sumir finna fyrir verkjum í kviðnum nokkrum dögum fyrir blæðingar og/eða meðan á þeim stendur. Það eru efni í líkamanum (m.a. prostaglandin) sem valda þessum verkjum með því að láta sléttu vöðvana í leginu dragast saman.
Tíðaverkir geta verið mismiklir en vanalega eiga verkjalyf, eins og Paratabs og Íbúfen, að slá á verkina. Ef verkirnir hamla fólki verulega og venjuleg verkjalyf slá ekki á verkina, þá gæti verið sniðugt að leita til læknis eða kvensjúkdómalæknis. Sumir sjúkdómar geta valdið óeðlilega slæmum verkjum eins og legslímuflakk (e. endometriosis) eða fjölblöðrueggjastokkaheilkenni (e. polycystic ovary syndrome, PCOS). Miklir tíðaverkir geta einnig verið ástæða til að byrja á getnaðarvörn sem stöðvar allar blæðingar – aftur er sniðugt að leita þá til læknis.
Bólumyndin í húð, aum brjóst, þreyta, verkir í baki og óreglulegar hægðir geta m.a. fylgt fyrirtíðaverkjum. Góð ráð við tíðaverkjum er að setja hitapoka yfir neðri hluta kviðarins, nudda neðri hluta baksins eða taka verkjatöflur. Hreyfing hefur líka góð áhrif á tíðaverki ásamt kynlífi ef að fólk treystir sér til. Kynlíf á blæðingum er ekki hættulegt en það þarf að nota getnaðarvarnir til að koma í veg fyrir þungun.
Kynþroski hjá strákum/XY einstaklingum
Breytileiki
Kynþroski hefst oftast á aldrinum 9-15 ára. Það er einstaklingsbundið hvenær kynþroskinn hefst en það stjórnast mest af erfðum.
Flestir ná fullum kynþroska á aldrinum 15-18 ára en eftir það eiga flestir samt eftir að hækka.
Mikilvægt er að muna að allir ganga í gegnum þessar breytingar og fólk er misjafnlega fljótt að þroskast. Í raun eru það aðallega erfðir sem stjórna því hversu fljótt við þroskumst og því aldrei feimnismál hvenær þetta á sér stað.
Það getur verið mjög gott að opna sig við einhvern eldri, vini sína eða fjölskyldumeðlim til að fá ráð eða bara ræða líðan í kringum þetta skrítna ferli.
Ef áhyggjur eru til staðar varðandi kynþroska er hægt að hafa samband við heimilislækni eða skólahjúkrunarfræðing.
Röddin
Á kynþroskanum breytist röddin og byrjar að dýpka. Hormónið testósterón spilar þar lykilhlutverk og veldur breytingunni í röddinni, eins og öðrum breytingum sem verða á líkamanum.
Breytingarnar eru þær er barkakýlið, sem er staðsett á hálsinum, stækkar og raddböndin, sem eru inni í barkakýlinu, lengjast og þykkna. Meðan á þessum breytingum stendur getur verið erfitt að hafa stjórn á röddinni. Hún getur hljómað ýmist skræk, rám eða djúp. Yfirleitt stendur þetta yfir í nokkra mánuði á meðan líkaminn er að venjast því að hafa stóran barka og þykk og löng raddbönd.
Talað er um að vera á mútum þegar röddin er að breytast og verður ýmist skræk, rám eða djúp. Flestir ganga í gegnum þessa breytingu og geta lent í því að röddin breytist þegar verið er að tala við einhvern.
Hár og rakstur
Hár byrja að vaxa á líkamanum þegar kynþroskinn fer af stað og er merki þess að líkaminn er að þroskast. Hár vex á kynfærum, undir höndum, á bringu, á fótleggjum, á handleggjum og í andliti (skegg). Það er misjafnt hvenær líkamshár byrja að vaxa og hve mikið vex.
Rakstur er alls ekki nauðsynlegur og persónubundið hvort fólk vilji raka skegg/kynfæri/handleggi/fótleggi/annað. Sumir vilja mögulega bara snyrta hárin en ekki raka þau alveg niður að húð.
Þú skalt passa vel upp á hreinlætið þegar þú ert að raka þig. Vertu með nýtt eða a.m.k. hreint blað í rakvélinni. Rakaðu þig í sturtu þegar húðin er heit og blaut. Notaðu rétta tegund af raksápu og svo gæti verið gott að nota þess á milli kornasápu eða skrúbb til að hreinsa húðina og koma í veg fyrir að ný hár vaxi inn í húðina. Það eru til bakteríueyðandi krem sem gætu hjálpað og sérstök krem sem mælt er með að nota eftir rakstur.
Húðin við kynfærin er viðkvæm og því þarf að vanda sig mjög við umhirðu. Gott væri að fara til læknis og fá sýklalyf, töflur eða krem ef það koma kýli á húðina, bólga eða húðin verður heit og rauð.
Svitamyndun
Svitakirtlar eru dreifðir á yfirborði húðarinnar og verða virkari á kynþroskaaldrinum. Sviti er vökvi sem myndast í svitakirtlum og inniheldur vatn, sölt og úrgangsefni. Meginhlutverk svitans er að hafa stjórn á líkamshita og losa líkamann við úrgangsefni.
Svitakirtlar eru nánast alls staðar en mest svitamyndun er undir höndum, á fótum, milli læra og stundum undir brjóstum.
Ekki er mikil lykt af svitanum sjálfum. Ef hann fær að liggja á húðinni í nokkrar klukkustundir ná bakteríur að starfa í svitanum og það veldur svitalykt.
Nauðsynlegt er því að fara reglulega í sturtu, t.d. annan til þriðja hvern dag og alltaf eftir áreynslu. Það er ekki nauðsynlegt að nota alltaf sápu við daglegan þvott og alltaf ætti að nota hana í hófi.
Svitalyktareyðir getur aðstoðað og til eru margar ólíkar gerðir. Einhverjum finnst hjálpa að minnka svitalykt með að raka líkamshár undir höndum en það er persónubundið.
Sæði
Á kynþroskaaldrinum byrja eistun að framleiða sáðfrumur (kynfrumur XY einstaklinga) og testósterón (kynhormón XY einstaklinga).
Sæði er hvítur og slímkenndur vökvi sem kemur úr typpi við sáðlát – í því eru sáðfrumur ásamt vökva frá blöðruhálskirtli og sáðblöðru sem blandast saman í sáðrásinni.
Við sáðlát losna milljónir sáðfruma út úr typpinu, að meðaltali 200-300 milljónir sáðfruma. Aðeins þarf eina sáðfrumu til að frjóvga egg. Eina leiðin til að koma í veg fyrir þungun er að nota getnaðarvarnir!
Sáðfrumur sjást ekki í sæðinu með berum augum heldur þarf smásjá til að sjá þær. Sæði er yfirleitt hvítt eða grágult á litinn og er ýmist matt eða gegnsætt. Sæði getur verið þykkt, kekkjótt og klístrað. Með öðrum orðum þá getur sæði verið mismunandi milli einstaklinga. Bragðið getur meira að segja verið öðruvísi, það getur haft salt, beiskt eða sætt bragð. Það fer oftast eftir mataræði einstaklings, hvort hann reykir, drekkur áfengi eða tekur einhver lyf.
Meðalmagn við hvert sáðlát er ein teskeið – en það getur verið minna hjá sumum og meira hjá öðrum. Ef stutt er frá seinasta sáðláti gæti magnið vera minna eða ef langt er síðan getur magnið verið meira – það þarf þó ekki endilega að vera þannig. Magn sæðis segir ekkert til hversu margar sáðfrumur eru í sæðinu.
Sáðlát í svefni
Að hafa sáðlát í svefni er oft kallað að hafa blauta drauma. Það er eðlilegt og flestir upplifa sáðlát í svefni. Þetta getur þó minnkað með aldri.
Að fá sáðlát í svefni þarf ekki að tengjast kynferðislegum draumum.
Standpína
Við örvun stækkar typpið og verður stinnt. Æðarnar í typpinu víkka og blóð safnast fyrir - typpið verður því svolítið eins og blaðra sem búið er að blása upp með blóði. Standpína kallast stundum bóner eða holdris.
Oft er það líkamleg eða andleg (hugsanir) örvun sem leiðir til standpínu, en standpína getur líka orðið af sjálfu sér. Standpína er ósjálfvirkt viðbragð og ekki hægt að hafa beina stjórn á því, ekki frekar en hægt er að stýra þarmahreyfingunum sínum. Standpína geta komið og farið eins og henni sýnist.
Standpína eru mjög eðlilegt líkamlegt viðbragð. Hún geta komið óumbeðin hvenær sem er og á hvaða aldri sem er. Standpína getur meira að segja komið í fóstrum sem hafa ekki enn verið fædd. Óumbeðin standpína er vanalega algengari á unglingsárunum þegar hormón eru í fullu fjöri. Vegna þess að standpína getur líka verið til marks um kynferðislega örvun þykir óumbeðin standpína stundum vandræðaleg.
Standpína kemur í svefni og það er mjög algengt að vakna í fullri reisn – sem á ensku kallast „morning wood“. Ástæðan fyrir standpínu á nóttunni er ekki alveg á hreinu. Mögulega er það vegna þess að magn hormóna í líkamanum breytist í svefni en einnig er mögulegt að það sé til að koma í veg fyrir að maður pissi á sig.
Útlit standpínu getur verið mjög breytilegt milli einstaklinga. Hjá sumum lengist typpið, hjá sumum lengist typpið minna. Typpi í reisn getur vísað upp, fram, niður eða á ská. Typpið getur verið beint eða sveigt upp, niður eða á ská. Sveigja á standpínu er algeng.
Oftast þarf standpínu til að hægt sé að fá fullnægingu, sumir geta þó fengið fullnægingu án hennar. Í kjölfar fullnægingar kemur vanalega sáðlát ef einstaklingur er kominn á kynþroskaskeið. Eftir fullnægingu verður typpið lint á ný. Fæstir geta fengið standpínu aftur fyrr en eftir að minnsta kosti 15 mínútur, á því tímabili getur typpið verið mjög viðkvæmt og jafnvel sárt að reyna að örva það.
Spurt og svarað um kynþroskann
Hvers lags útferð úr píku er eðlileg og hvað er óeðlilegt?
Útferð er einstaklingsbundin og því er gott að þekkja sína útferð. Ef t.d. áferð, lykt, litur og magn breytist er sniðugt að leita til læknis.
Get ég pissað með túrtappa?
Já! Túrtappinn fer inn í leggöngin en þvagið kemur út um þvagrásina.
Er hættulegt að sofa með túrtappa? En stunda kynlíf?
Það er ekki mælt með því að sofa með túrtappa þar sem hann ætti ekki að vera lengur en 8 klukkustundir inni í leggöngunum í einu. Það er sjaldnast hættulegt að gleyma honum í nokkra klukkutíma, en alltaf best að skipta innan þessa tíma og mikilvægt að gleyma honum ekki inni. Mestur líkur eru að fá sveppasýkingu – ef það gerist oft gæti verið sniðugt að skipta í álfabikar, dömubindi eða túrnærbuxur.
Best er að fjarlægja túrtappa fyrir kynlíf því annars getur hann færst lengra upp í leggöngin og þá getur verið mjög erfitt að ná í hann síðar.
Ef ég get ekki sett í mig túrtappa, eru leggöngin of þröng?
Það þarf ekki að vera, stundum er túrtappinn ekki settur nógu langt inn í leggöngin eða honum er beint í vitlausa átt. Til að auðvelda uppsetningu túrtappa er hægt að setja annan fótinn upp á klósettsetu og slaka vel á vöðvum kringum leggöng. Þolinmæði kemur manni langt. Einnig er sniðugt að prófa ólíkar stærðir ef allt annað virkar ekki.
Af hverju kemur alltaf typpaostur undir kónginn? Er hann hættulegur?
Typpaostur/smegma/reðurfarði er samansafn af dauðum húðfrumum, olíu húðarinnar og raka. Hann kemur fram undir forhúðinni og safnast saman ef hann er ekki þrifinn.
Typpaostur er þarna til að halda raka á kónginum en gott er að þrífa hann reglulega í sturtu (bara með vatni) upp á hreinlæti og lykt.
Hver er meðalstærð á typpi?
Erfitt er að mæla meðalstærð typpa. Typpi eru einnig misstór í slökun eða í reisn. Typpi geta verið allt frá 2-20cm stór.
Á að vera fjólublá lína undir typpi?
Það er mjög eðlilegt. Þetta er bláæð sem er til staðar í öllum typpum en getur verið sýnilegri hjá sumum út af þykkt og lit húðar.
Viltu vita meira?
Ef þér finnst þú ekki enn þá vita nóg eða þinni spurningu var ekki svarað, ekki hika við að hafa samband!