Kynsjúkdómar smitast á milli slímhúða. Slímhúðir finnast í kynfærum, endaþarmi, munni, augum og nefi.
Kynsjúkdómar
Efnisyfirlit
Er ég með kynsjúkdóm?
Sumir fá einkenni þegar þeir smitast af kynsjúkdómum en aðrir ekki! Það fer eftir um hvaða sjúkdóm ræðir og getur verið breytilegt milli aðila.
Þumalputtareglan er að leita í tékk ef:
- Eitthvað breytist varðandi kynfærin þín
- t.d. sviði, sár, vörtur, breytt útferð úr píku, útferð úr typpi
- Eftir að þú sefur hjá einhverjum án þess að nota smokk
- Þegar þú byrjar að hitta nýjan bólfélaga
- Haft er samband við þig vegna gruns um smit
Til þess að panta tíma í tékk er hægt að hringja í Húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala: s. 5436050.
Að koma í veg fyrir smit
Smokkurinn
Þegar smokkurinn er rétt notaður veitir hann vernd gegn smiti!
Passa þarf að:
- Smokkurinn sé ekki útrunninn
- Ekki komi gat á smokkinn (ekki opna með tönnum/skærum)
- Smokkurinn snúi rétt!
- Nota hann frá byrjun þannig að slímhúðir þeirra sem mök eiga snertist ekki.
- Nota nýjan smokk í hvert skipti
- Taka typpið út á meðan það er stinnt til að minnka líkur á að smokkur detti af
Það er ráðlagt að nota smokk við leggangarmök, munnmök og endaþarmsmök.
Töfrateppi
Á Íslandi getur verið erfitt að finna töfrateppi til sölu en létt er að búa til töfrateppi úr smokk!
Lokaði endinn er klipptur af og klippt upp lengdina á smokknum svo úr verður kassi.
Töfrateppi er hægt að leggja yfir píku og endaþarm til að vernda munninn gegn smiti við munnmök.
Algengir kynsjúkdómar
HSV áblástur (e. Herpes Simplex Virus)
Kynfæraáblástur er sýking af völdum veirunnar Herpes simplex, tegund 2.
Kynfæraáblástur smitast með óvörðu kynlífi við sýktan einstakling þegar hann er með einkenni.
Liðið getur langur tími frá smiti og þar til einkenni koma fram, jafnvel einhverjir mánuðir.
Einkenni kynfæraáblásturs eru
- Litlar blöðrur eða sár á kynfærum
- Dofi, brunatilfinning eða kláði á kynfærum
- Sársauki við þvaglát
- Óvenjuleg útferð frá píku
Ef þig grunar að þú sért með kynfæraáblástur getur þú leitað til næstu heilsugæslu, húð- og kynsjúkdómadeildar Landspítala eða til sérfræðilæknis.
Kynfæraáblástur er greindur með skoðun læknis eða sýnatöku. Ekki er til nein lækning við kynfæraáblæstri. Til er meðferð sem dregur úr einkennum og styttir tímann sem einstaklingar eru með blöðrur eða sár.
Einkenni geta komið fram ítrekað en sjaldnar eftir því sem lengri tími líður frá smiti.
Klamydía (e. chlamydia)
Bakterían Chlamydia trachomatis veldur sjúkdómnum klamydía. Klamydía smitast með óvörðu kynlífi.
Einkenni frá píkum
- Verkur við þvaglát
- Óvenjuleg útferð
- Verkir í grindarholi
- Verkir við samfarir
- Blæðing eftir samfarir
- Milliblæðingar
Einkenni frá typpum
- Verkur við þvaglát
- Hvít útferð frá þvagrás
- Verkur í pung
Ef þig grunar að þú sért með klamydíu getur þú leitað til næstu heilsugæslu, á húð- og kynsjúkdómadeildar Landspítala eða til sérfræðilæknis.
Klamydía er greind með þvagprufu frá typpi eða stroki frá leghálsi.
Klamydía er meðhöndluð með sýklalyfjum.
Hægt er að smitast aftur og aftur af klamydíu.
Lekandi (e. gonorrhea)
Lekandi orsakast af bakteríunni Neisserie gonerroheae. Lekandi smitast við óvarin kynmök. Lekandi getur einnig smitast í háls við munnmök.
Einkenni lekanda
- Lekandi getur verið einkennalaus
- Breytingar á útferð úr leggöngum eða þvagrás
- Sársauki við þvaglát
- Verkur í grindarholi
- Milliblæðingar eða meiri blæðingar en vanalega
- Þrútin forhúð og verkur í eistum
Ef þig grunar að þú sért með lekanda getur þú leitað til næstu heilsugæslu, húð- og kynsjúkdómadeildar Landspítala eða til sérfræðilæknis.
Lekandi er greindur með stroksýni úr þvagrás, leghálsi, endaþarmi eða með þvagsýni.
Lekandi er meðhöndlaður með sýklalyfjum.
Sárasótt (e. syphillis)
Sárasótt orsakast af bakteríunni Treponema pallidum. Sjúkdómurinn smitast við óvarin kynmök við sýktan einstakling. Sumir fá ekki einkenni en einkenni sárasóttar eru m.a.:
- Lítil sár sem birtast á kynfærum, endaþarmi eða í munni
- Rauð útbrot sem birtast á lófum eða á fótleggjum
- Húðvöxtur sem lítur út eins og vörtur sem geta myndast á ytri hluta píkunnar eða í kringum endaþarm.
- Hvítir blettir í munni
- Þreyta, höfuðverkur, liðverkir, hiti, bólgnir kirtlar í hálsi, nára eða handarkrika
Ef þig grunar að þú sért með sárasótt getur þú leitað til heilsugæslunnar, húð- og kynsjúkdómadeildar Landspítala eða til sérfræðilæknis.
Sárasótt er greind með blóðprufu og meðhöndluð með sýklalyfjum.
Mikilvægt er að meðhöndla sjúkdóminn því hann getur breiðst út til heila eða annarra líkamshluta og haft alvarlegar afleiðingar.
Alnæmi (e. HIV)
HIV (e. human immunodeficiency virus) er veira sem leitt getur til alnæmis. Veiran veldur fækkun á T-hjálparfrumum og brýtur þannig niður ónæmiskerfi líkamans. Þeir sem hafa sýkst af veirunni geta þróað með sér alnæmi en með meðferð má í flestum tilvikum koma í veg fyrir þá þróun.
HIV veiran finnst í mestu magni í blóði en hún finnst líka í sæði, leggangaslími og brjóstamjólk. HIV veiran finnst ekki í munnvatni, tárum, svita eða hor og því geta þessir líkamsvessar ekki borið smit á milli einstaklinga.
Við legganga- og endaþarmsmök getur HIV smitast og líklegra er að kona smitist frá karli en karl frá konu. Meiri líkur eru á að smitast við endaþarmsmök en við mök í leggöng. Slímhúð endaþarms er mun viðkvæmari en slímhúð legganganna.
Að vera smitaður af öðrum kynsjúkdómum eykur líkur á HIV smiti við kynmök.
Einkenni:
- Fyrstu tvær vikurnar eftir smit eru engin einkenni.
- Eftir 2 til 4 vikur finna margir fyrir flensulíkum einkennum. Margir fá engin einkenni. Á þessu tímabili er HIV mjög smitandi þar sem magn veirunnar í blóðinu er mikið.
- Eftir að fólk jafnar sig á einkennum bráðrar sýkingar tekur við tímabil þar sem einkenni eru lítil eða engin. Ónæmiskerfið nær að halda sýkingunni niðri en hægt og bítandi vinnur HIV veiran sitt verk. Þetta tímabil getur tekið frá 3 upp í 20 ár sé fólk ekki á meðferð.
- Án meðferðar hefur HIV veiran betur í baráttunni og nær að veikla ónæmiskerfið þannig að smitaður einstaklingur veikist af alnæmi. Ómeðhöndlað alnæmi leiðir til dauða. Lyfjameðferð, sem hafin er á þessu stigi getur bætt horfur fólk talsvert.
HIV er greint með blóðprufu. HIV smit er ólæknanlegt en til eru lyf sem draga úr fjölgun veirunnar, geta bætt líðan, lengt líf og dregið úr smithættu.
Ef þig grunar að þú gætir hafa smitast af HIV er mikilvægt að þú leitir strax til heilsugæslunnar.
HIV smitaðir einstaklingar sem lifa heilsusamlegu lífi og taka lyfin samkvæmt læknisráði hafa í dag svipaðar lífshorfur og ósmitaðir einstaklingar. Með réttri lyfjameðferð eiga þeir einstaklingar ekki að vera smitandi.
Smelltu hér til þess að fara á heimasíðu HIV Ísland
HPV kynfæravörtur
Kynfæravörtur er sýking af völdum Human Papilloma Virus (HPV). Sumar tegundir HPV geta valdið leghálskrabbameini en aðeins tvær tegundir valda vörtum.
Vörtur birtast á slímhúð og á húð, oftast á ytri kynfærum og við endaþarmsop. Vörturnar geta valdið kláða og óþægindum.
HPV smitast með snertingu húðar eða slímhúðar við sýkta húð eða slímhúð. Smit getur orðið þó engin einkenni séu til staðar.
Einkenni kynfæravarta eru
- Kláði og erting
- Sársauki við samfarir hjá konum
- Óþægindi við þvaglát
Leghálskrabbamein
- Bólusett er við 12 ára aldur gegn HPV
- Eftir 23 ára aldur er hægt að skima fyrir breytingum í leghálsi hjá krabbameinsfélaginu
Ef þig grunar að þú sért með kynfæravörtur getur þú leitað til næstu heilsugæslu, á húð- og kynsjúkdómadeildar Landspítala eða til sérfræðilæknis.
Kynfæravörtur eru greindar með skoðun læknis. Langur tími getur liðið frá smiti þar til einkenni koma í ljós, jafnvel einhverjir mánuðir.
Ekki er hægt að meðhöndla kynfæravörtur þar sem engin lyf eru til. Vörturnar hverfa fyrr eða síðar af sjálfu sér en liðið getur langur tími, jafnvel ár þangað til að þær hverfa. Veiran sem veldur vörtunum hverfur þó ekki úr líkamanum og geta því vörturnar komið fram aftur.
Inni á vef Krabbameinsfélagsins má finna upplýsingar um leghálsskimun.
Spurt og svarað um kynsjúkdóma
Hvernig ræðir maður kynsjúkdóma við bólfélaga sína?
Það eru ótal aðferðir að ræða kynsjúkdóma við bólfélaga og er ekki hægt að segja hvað hentar hverjum og einum. Þó er mikilvægt að tala hreinskilið og opinskátt um þessi mál og í lang flestum tilvikum skilar það bestum árangri. Við mælum ekki með því að sleppa þessum umræðum þar sem þær skipta máli upp á heilbrigði og tilfinningar allra aðila.
Ef þú og bólfélagi ætlið að stunda kynlíf án smitvarna (smokkur/dental dam) þá er enn mikilvægara að tala hreinskilið um þessi mál - og jafnvel fara saman í tékk.
Er sveppasýking líka kynsjúkdómur?
Fólk með píku getur fengið sveppasýkingu vegna blæðinga, sýklalyfja, of mikillar sápu, of þröngs fatnaðar og fleira, án þess að hafa nokkurn tíma stundað kynlíf. Sveppasýking getur hins vegar smitast við kynmök. Einkenni geta verið eftirfarandi:
- Óeðlileg útferð
- Óeðlileg lykt
- Roði
- Útbrot
- Kláði
- Brunatilfinning við þvaglát
Auðvelt er að hafa samband við heimilislækni eða sérfræðing og fá lyf til að losna við sýkinguna.
Get ég fengið kynsjúkdóm án þess að stunda kynlíf?
Líklegasta smitleið allra algengra smitsjúkdóma (klamydía, HSV, HPV) er í gegnum snertingu slímhúða.
- Snerting kynfæra við önnur kynfæri, endaþarm, munn
- Opið sár sem kemst í snertingu við aðra slímhúð (kynfæri, endaþarm) - þá getur verið gott að nota hanska eða smokk yfir sárið
- Kossar geta smitað HSV týpu 1 á milli og hún veldur frunsum á vörum - það smitast þó ekki á kynfæri nema gegnum munnmök
- Kynfæravörtur sitja ekki bara á slímhúð heldur líka húð
Aðrar mögulegar smitleiðir geta verið smit við fæðingu (frá móður til barns) en oftast er hægt að koma í veg fyrir þau smit.
Smit geta orðið með blóði t.d. HIV smit vegna stungu á notaðri nál.
Bakteríur (klamydía, sárasótt, lekandi) geta lifað í einhvern tíma á flötum eins og kynlífstækjum og því gott að þrífa þau reglulega.
Viltu vita meira?
Ef þér finnst þú ennþá ekki vita nóg eða þinni spurningu var ekki svarað, ekki hika við að hafa samband!